„Þetta er það mesta sem ég hef séð. Við erum heppin því þetta hefur gengið stóráfallalaust fyrir sig,“ segir Ágúst Svansson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Frá því klukkan 4 í nótt til 14 í dag sinnti lögreglan 516 verkefnum, þar af voru 70 til 80 útköll þar sem aðstoða þurfti fólk vegna ófærðar.
Ágúst segir nóttina hafa gengið nokkuð vel miðað við aðstæður. Margir lögðu leið sína í miðbæinn í nótt, höfðu vín um hönd og áttu ekki auðvelt með að komast aftur heim þegar kyngdi niður snjó. Almennt hafi borgarbúar farið eftir fyrirmælum lögreglu en svartir sauðir leynast þó alltaf inn á milli að sögn Ágústs. „Þegar fólk áttaði sig á því að það kæmist ekkert þá varð það rólegt.“
Klukkan 14 í dag hætti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að aðstoða fólk vegna ófærðar. Fyrst um sinn snerust störf lögreglunnar meðal annars um að halda stofngötum greiðum, aðstoða fólk í sjúkraflutningum og koma heilbrigðisstarfsfólki til vinnu.
Lögreglan þurfti einnig að sinna vegfarendum á Kjalarnesi en veginum þar var lokað. Opna þurfti fjöldahjálparstöð til að koma fólkinu í skjól.
„Við vonum bara að það fari ekki að blása,“ segir Ágúst og bendir á að þá fyrst verði ástandið verulega slæmt.