Götupartí í Hlíðunum

Góð stemning í Eskihlíð. Svavar Knútur Kristinsson og Líney Úlfarsdóttir …
Góð stemning í Eskihlíð. Svavar Knútur Kristinsson og Líney Úlfarsdóttir ásamt börnunum Emmu og Úlfari tóku þátt í stórmokstri með nágrönnunum í dag. mbl.is/Sunna

„Þetta er æðislegt. Gott tækifæri til að hitta nágrannana, spjalla og hjálpast að. Svona á samfélag að vera,“ segir Svavar Knútur Kristinsson tónlistarmaður sem býr í Eskihlíð í Reykjavík. Íbúar hússins voru flestir úti fram eftir degi að moka bíla hver annars undan snjónum.

Blaðamaður mbl.is fór í gönguferð um Hlíðarnar með hundinn og tók púlsinn á stemningunni í snjónum í leiðinni.

Í Reykjahlíð standa hurðir á bíl opnar. Í kringum hann hamast fólk við snjómokstur í takt við tónlistina úr útvarpinu.

„Þetta er fallegur vetrardagur,“ segir eldri maður sem brosandi sópar snjónum af bíl sínum í Mávahlíð. Viðhorf hans er til marks um andrúmsloftið í Reykjavíkurborg sem var á kafi í snjó þegar fólk fór á fætur í morgun.

Fallegur vetrardagur, sagði þessi glaðlegi íbúi í Hlíðunum.
Fallegur vetrardagur, sagði þessi glaðlegi íbúi í Hlíðunum. mbl.is/Sunna

Verið er að skafa snjó af þaki í öðru húsi í götunni. Ungur maður er hálfur út um þakgluggann og heilu skaflarnir falla á gangstéttina fyrir neðan.

„Ertu hætt í dag?“ spyr kona af götunni aðra sem stendur fyrir innan gluggann í íbúð sinni. „Ég er búin að moka í þrjá tíma, það er nóg!“ segir hún hlæjandi.

Hundur rekur skyndilega trýnið upp úr snjó á gangstéttinni. Hann ryður sér stoltur og kátur leið og eigandinn fylgir á eftir, fetar í spor hundsins. Það er enginn köttur á ferli, þeir halda sig inni í dag.

Jóhanna Flensborg Madsen stendur vaktina í Sunnubúð í dag.
Jóhanna Flensborg Madsen stendur vaktina í Sunnubúð í dag. mbl.is/Sunna

„Það hefur verið brjálað að gera í dag,“ segir Jóhanna Flensborg Madsen sem stendur vaktina í Sunnubúð, „rjóminn er búinn,“ bætir hún við. Margir hafa nýtt sér þjónustu hverfisbúðarinnar daginn fyrir sjálfan bolludaginn. Það er líka fullt út úr dyrum í Bakarameistaranum. Í hverri götu Hlíðahverfis má sjá fólk með bollukassa undir handleggnum, á heimleið úr hverfisbakaríinu.

„Það hefur verið standandi partí í götunni í allan dag,“ segir Anna Vigdís, íbúi í Drápuhlíð. Hún er úti að moka snjóinn af bílnum sínum og nýtur aðstoðar tíkarinnar Míu litlu Árdal, eins og hún heitir fullu nafni. Nokkru frá er önnur kona að skafa af bílnum með fægiskóflu. Það eru öll möguleg verkfæri tínd til í dag. „Ég hefði nú alveg viljað vera með betri skóflu,“ segir hún brosandi. „Svo brotnaði fægiskóflan meira að segja!“

Hún notaði fægiskóflu og brosti út að eyrum þótt verkið …
Hún notaði fægiskóflu og brosti út að eyrum þótt verkið sæktist seint. mbl.is/Sunna

Eftir götunni kemur par gangandi, með skóflu á öxlinni. „Við erum að fara að hjálpa mömmu að moka sig út í næstu Hlíð, hún hjálpaði okkur í morgun,“ segir konan.

Reykjavíkurborg hefur ekki getað mokað húsagöturnar í Hlíðunum í morgun. En íbúar sumra þeirra hafa tekið sig til og mokað langa kafla á gangstéttunum og einnig hluta gatnanna. Það er ekkert verið að bíða eftir hjálp hins opinbera. Fólk er misjafnlega búið, sumir notast við strákústa, aðrir við góðar snjóskóflur. Svo er mokað af kappi undir stöðugum fuglasöng í sólinni. Í skugganum er fólk kappklætt en þar sem geislar sólar ná að skína er fólk að moka á peysunni og jafnvel stuttermabolnum.

Þau voru á leið með skófluna í næstu Hlíð til …
Þau voru á leið með skófluna í næstu Hlíð til að aðstoða ættingja við moksturinn. mbl/Sunna

Eftir Hamrahlíð er risastórum jeppa, á 44" dekkjum ekið til og frá, eins og til að hrista af honum snjóinn. Það tekst bærilega og mjöllin feykist af bílnum. Það er gott að vera vel búinn og gaman að sjá upplitið á eigendum smábíla sem geta aðeins látið sig dreyma um að bakka út úr stæðum sínum. Enda standa þeir furðulostnir og halla sér fram á skóflurnar er jeppinn fer hjá.

Tveir feður í Grænuhlíð hafa gefist upp á að moka bílana út. Þeir eru sáttir við þá ákvörðun og hafa þess í stað dregið snjóþoturnar fram og keppa nú um hvor er fljótari að draga börnin út götuna.  

Anna Vigdís og Mía litla hjálpuðust að við moksturinn.
Anna Vigdís og Mía litla hjálpuðust að við moksturinn. mbl.is/Sunna

Í ofanverðri Mávahlíð eru íbúar eins hússins saman komnir á bílastæðinu og láta hendur standa fram úr ermum. „Þetta minnir mig nú bara á bernskuárin á Siglufirði,“ segir einn. Yngri kona fer að spyrja hann nánar út í þetta og hann segir henni af illfærum fjallvegum og snjóbyl.

Í dag er enginn bylur. En nóg af snjónum. Einhver tonn hafa sennilega verið mokuð af tröppum og ofan af bílum og gangstéttum. Um leið og vindurinn blæs lítið eitt fýkur léttur snjórinn af trjánum. Í dag erum við þakklát fyrir lognið.

Það er einfaldlega þannig að allir sem vettlingi geta valdið, í bókstaflegri merkingu, eru að hjálpast að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert