Tveir hópar frá björgunarsveitum, alls átta manns, voru kallaðir að húsi í Grafarholti um klukkan hálfellefu í morgun til að aðstoða slökkvilið höfuðborgarsvæðisins við sjúkraflutning.
Að sögn Sigurbjörns Guðmundssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu, þurfti að bera manneskju inn í sjúkrabíl en bíllinn komst ekki heim að húsinu.
Hann segir að verkið hafi gengið fljótt og vel fyrir sig en björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn þurftu að vaða snjóinn upp í klof með sjúkrabörur.
Sigurbjörn segir að ekki hafi verið um neyðartilvik að ræða en engu að síður þurfti að sinna því fljótt.
Hann segir að heilt yfir hafi dagurinn gengið mjög vel, þrátt fyrir mikla ófærð.
„Við erum afskaplega þakklát fyrir það hvað fólk fer vel eftir tilmælum eins og í morgun. Það hjálpar okkur gríðarlega að það skuli ekki vera bílar fastir, meira en verið hefur,“ segir hann og ítrekar að fólk fari ekki af stað á vanbúnum bílum.