Ekki lokið við að ryðja húsagötur í dag

Unnið er að snjómokstri á höfuðborgarsvæðinu og var hafist handa …
Unnið er að snjómokstri á höfuðborgarsvæðinu og var hafist handa við að ryðja húsagötur í morgun. Kristinn Magnússon

Byrjað var að ryðja húsagötur í höfuðborginni í morgun og segir Halldór Ólafsson, rekstrarstjóri vetrarþjónustu gatna hjá Reykjavíkurborg, verkið ganga hægt fyrir sig. „Þetta nuddast, við skulum bara segja það þannig,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Um 25 vélar eru nú að störfum í húsagötum núna og kveðst Halldór telja að á milli 25-30 vinnuvélar séu nú að störfum og engir hafi enn fengið að hvíla sig eftir nóttina. „Við bætum bara í og eigum eftir að bæta í enn frekar,“ segir hann og útskýrir að von sé á fleiri snjóruðningstækjum í gatnahreinsun nú eftir hádegi.

Verið var að víkka út stofnleiðir í nótt, en ekki er unnið að hreinsun þeirra þessa stundina. Aðreinar og hringtorg eru hins vegar víða mun þrengri en venjulega og er ökumönnum því bent á að fara varlega. „Það þurfa allir að passa sig,“ segir Halldór.

Þá er einnig verið að ryðja helstu göngu- og hjólaleiðir.

230 km af húsagötum

Snjómagnið sem er á höfuðborgarsvæðinu þessa stundina er meira en svo að það dugi að ryðja því frá götunum og segir Halldór þrjá bíla því hafa verið að störfum frá því í nótt við að flytja snjó sem búið er að ryðja á svæði í eigu borgarinnar. Hann kveðst ekki treysta sér að giska á hve snjótonnin sem flutt hafa verið eru orðin mörg, en segir ferðirnar ófáar.

Um 230 km af húsagötum eru í Reykjavík og er það tæpur helmingur alls vegakerfis borgarinnar. Ekki verður því lokið við að ryðja íbúagötur í dag. „Það eru engar líkur á því,“ segir Halldór.

Reynt sé hins vegar að hafa tæki að störfum í sem flestum hverfum. „Síðan er unnið út frá því. Það eru vélar upp í Breiðholti, Árbæ, Selás, í Grafarvoginum og Úlfarsárdal og svo er fjöldi véla að störfum fyrir neðan Elliðaár.

Þetta gengur hins vegar hægt því þetta er mjög mikill snjór.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert