Snjómokstur gengur hægt en öll tæki hafa verið að störfum frá þrjú í nótt, segir Halldór Þórhallsson hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. Hann biður fólk sem hefur tök á því, að koma bílum sínum út úr íbúðargötum svo hægt sé að ryðja þær. Moksturinn tekur einhverja daga enda fannfergið gríðarlegt.
Halldór biður fólk um að gefa sér góðan tíma í að komast leiðar sinnar nú í morgunsárið því þrátt fyrir að þokkaleg færð sé á stofnleiðum er ljóst að umferðin mun ganga hægt.
Á milli 30 og 40 ruðningstæki eru að störfum í hverfum borgarinnar og verða fram á kvöld. Halldór á von á því að þannig verði það næstu daga svo hægt sé að ryðja öll hverfi.
Mjög erfitt getur verið að ryðja smærri götur ef margir bílar eru við göturnar og því væri það gott ef fólk gæti komið bílum sínum í burtu á meðan mokstur stendur yfir.
Hér er hægt að fylgjast með snjómokstri í Reykjavík