Hirða sorp á laugardag vegna ófærðar

Starfsmenn sorphirðunnar hafa í nógu að snúast þessa dagana.
Starfsmenn sorphirðunnar hafa í nógu að snúast þessa dagana. mbl.is/Brynjar Gauti

Starfsmenn sporhirðu Reykjavíkur eru einum degi á eftir í störfum sínum vegna ófærðarinnar síðustu daga og sjá fram á að þurfa að vinna á laugardaginn til að bæta úr stöðu mála.

Í morgun hafa þeir verið að losa endurvinnsluefni í Breiðholti, auk þess sem þeir hafa losað blandaðan úrgang í Vesturbænum. Þau störf halda áfram í dag og á morgun.

Í gær þurftu þeir aftur á móti frá að hverfa í Breiðholti og í Vesturbænum vegna ófærðar. 

Hálkuslys í morgun 

Seinnipartinn á morgun og á fimmtudaginn verður sorphirða í miðbænum. Frost er framundan og að sögn Eygerðar Margrétardóttur, deildarstjóra umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg, verður að koma í ljós hvernig sorphirðan mun ganga.

„Skilaboð okkar til íbúa er að moka og hálkuverja,“ segir hún og bendir á að eitt hálkuslys hafi orðið í morgun. Þá datt starfsmaður í hálkunni en gat haldið áfram störfum og  þurfti ekki að fara á slysadeild. „Við bjóðum öllu okkar starfsfólki að vera á broddum en það dugir ekki alltaf til.“

mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Skildu eftir 20 til 30 staði 

Fram til klukkan ellefu í morgun þurftu starfsmenn sorphirðunnar að skilja eftir 20 til 30 staði vegna þess að þeir komust ekki að tunnunum. „Íbúar tóku vel í þessa áskorun okkar í gær um að moka. Það hefur orðið mikil breyting frá því í gær en það er alltaf einhver misbrestur,“ segir Eygerður.

Hún bætir við að starf sorphirðufólks sé erfiðara núna en venjulega við að draga tunnur en allir séu að gera sitt besta til að vinna upp tímann sem hefur tapast. Alls starfa fimmtíu manns við sorphirðu í borginni og að sögn Eygerðar er allur mannskapurinn að störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert