„Ömurlegt“ ástand í miðbænum

Biðin var löng eftir leigubílum aðfaranótt sunnudags.
Biðin var löng eftir leigubílum aðfaranótt sunnudags. mbl.is/Jim Smart

Framkvæmdastjóri leigubílastöðvarinnar BSR segir ástandið í miðbænum hafa verið óvenjuslæmt aðfaranótt sunnudags þegar fólk var að bíða eftir leigubílum í ófærðinni eftir að hafa farið út að skemmta sér.

Leigubílar töfðust eftir að hafa fest sig og einnig voru þeir lengi að komast á milli staða í fannferginu. „Það var ömurlegt ástand fyrir fólkið sem var að bíða niðri í bæ eftir leigubílum,“ segir Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri BSR.

Hann segir að ástandið hafi sjaldan verið eins slæmt og fólk hafi barist um bílana. Engin átök hafi þó orðið en fólk hafi einfaldlega verið þreytt og kalt hafi verið í veðri.

Snævi þakinn leigubíll.
Snævi þakinn leigubíll. Ljósmynd/Aðsend

Fastur í fimm klukkutíma

Töluvert margir bílstjórar BSR festu bíla sína þessa nótt. Einn þeirra sat fastur í fimm klukkustundir í ófærðinni. Hann var staddur á Smiðjuvegi í Kópavogi þegar hann festi sig. Töluverð bið varð á því að hann fengi aðstoð vegna mikils fannfergis en á endanum tókst að losa bílinn með aðstoð góðra manna.

Að sögn Guðmundar Barkar gekk flestum leigubílstjórum vel að koma kúnnum sínum á áfangastað aðfaranótt sunnudags og á sunnudeginum. Þeir leigubílstjórar sem festu bílana gerðu það yfirleitt  eftir að þeir voru komnir á áfangastað er þeir óku um götur sem voru ekki fjölfarnar.

Snjó rutt af vegi á höfuðborgarsvæðinu.
Snjó rutt af vegi á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snjóruðningur hefði mátt byrja fyrr

Guðmundur man varla eftir öðru eins ástandi í leigubílamálum og skapaðist vegna ófærðarinnar en rámar í eina nótt á níunda áratugnum þegar mikið snjóaði. Hann segir að þungfært hafi verið frá miðnætti aðfaranótt sunnudags en þegar líða tók á nóttina varð færðin sífellt þyngri.

Hann bendir á að ruðningur gatna hafi byrjað klukkan fjögur en hefði mátt byrja tveimur tímum fyrr. Vitað hafi verið að sérlega mikil snjókoma yrði þessa nótt.

Leigubílar í Lækjargötu.
Leigubílar í Lækjargötu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Allt að klukkustundar bið

Erfitt var að ná sambandi við leigubílastöðina símleiðis á sunnudaginn. Flestir þeir sem náðu sambandi þurftu að bíða í tuttugu mínútur til eina klukkustund eftir að fá bíl. „Það voru ekki nógu margir bílstjórar til að anna þessu öllu saman. Hvert símtal tekur lengri tíma og það er meiri vinna fyrir starfsfólkið á símanum að finna bílana og stjórna þessu,“ segir hann og bætir við að um 80% bílaflota BSR hafi verið að störfum aðfaranótt sunnudags.

Guðmundur segir stöðuna með hefðbundnu sniði núna og að fyrirtækið anni eftirspurn. Umferðin hafi þó gengið hægt vegna snjókomunnar og fólk sé lengi að komast til og frá vinnu. Það verði til þess að biðin eftir leigubílum lengist og þeir séu lengur að koma fólki á áfangastað.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert