Ekki hægt að grípa næsta mann og ákæra

Lög­regla fær­ir Annþór fyr­ir dóm þegar málið var fyrst tekið …
Lög­regla fær­ir Annþór fyr­ir dóm þegar málið var fyrst tekið fyrir.

Þegar atvik máls eru ekki upplýst, er ekki hægt að grípa næsta mann, ákæra hann og sakfella. Þetta sagði Þórhallur Haukur Þorvaldsson, verjandi Annþórs Karlssonar, fyrir Hæstarétti í dag.

„Ákærði verður ekki sakfelldur fyrir það eitt að hafa áður komist í kast við lögin,“ bætti hann við.

Annþór er, ásamt Berki Birgissyni, ákærður fyrir að hafa banað Sigurði Hólm Sigurðssyni, samfanga þeirra á Litla-Hrauni, í maí árið 2012.

Voru þeir sýknaðir í Héraðsdómi Suðurlands í mars á síðasta ári, tæpum fjórum árum síðar. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og fór munnlegur málflutningur lögmanna fram í morgun.

Áfram er krafist tólf ára fangelsis yfir þeim báðum.

Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni árið 2012. Annþór …
Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni árið 2012. Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða hans. mbl.is/Brynjar Gauti

Matsgerðunum ekki verið hnekkt

Verjandi Annþórs sagði fyrir réttinum í dag að Annþór hefði frá upphafi neitað allri sök.

Vísaði hann meðal annars til þess að norskur yfirmatsmaður í málinu hafi enga áverka fundið á líki Sigurðar. Þá hafi sænskur yfirmatsmaður sagt rannsókn málsins ábótavant og fullyrt sömuleiðis að ítarlegri krufning hefði farið fram í Svíþjóð, hefði málið átt sér stað þar.

Báðir yfirmatsmennirnir hafi heldur ekki getað fullyrt um dánarorsök Sigurðar, en hún kunni að hafa átt sér eðlilegar skýringar, til dæmis vegna langvarandi neyslu eiturlyfja.

Matsgerðum þeirra beggja hefði ekki verið hnekkt, þrátt fyrir aðfinnslur ákæruvaldsins, og því þyrfti að leggja þær til grundvallar í málinu.

Krafðist hann að lokum að dómur héraðsdóms yrði staðfestur um sýknu, en færi svo ólíklega að Annþór yrði fundinn sekur bæri að horfa til þess óeðlilega langa tíma sem rannsókn málsins hefði tekið. Sagði hann Annþór hafa sætt vistun á einangrunargangi fangelsisins í eitt og hálft ár í kjölfar árásarinnar, eða frá júní 2012 og fram í desember 2013.

Yrði að telja að dráttur á rannsókn málsins og einangrunarvistin væri fram úr öllu hófi.

Sigurður sleginn eða í hann sparkað

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, fór yfir matsgerðir yfirmatsmannanna, gagnrýndi þær og lagði fram tvær réttarfræðilegar skýrslur, ótengdar málinu að öðru leyti, sem hann sagði stangast á við það sem yfirmatsmennirnir fullyrtu um dánarorsökina.

Þá sagði hann ekkert benda til þess að Sigurður hafi verið tuttugu mínútum frá því að deyja af völdum hægfara blæðingar, þegar litið væri til myndbandsupptaka fangelsisins skömmu áður en hann lést.

Fangaverðir hefðu litið inn til hans í klefann aðeins fimm mínútum áður en Annþór og Börkur fóru þangað. Þá hefði ekkert amað að honum.

Sagði saksóknarinn að Sigurður hefði verið sleginn eða í hann sparkað, svo illa að hann hafi látist um fimmtán mínútum síðar sökum blæðingar.

Benti hann enn fremur á, að mikill munur hefði verið á spennustigi Annþórs og Barkar, þegar litið væri til myndbandsupptaka fyrir og eftir komu þeirra í klefa Sigurðar.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Börkur haft áhyggjur af engri læknisskoðun

Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar, sagðist ekki geta séð hvernig ákærðu gætu hafa valdið andláti Sigurðar.

Reifaði hann frásagnir margra vitna í fangelsinu um slæmt ástand Sigurðar, þar sem eitt þeirra hefði meðal annars sagt að Sigurður hefði verið „eins og gangandi lík“. Vísaði hann að auki til vitnisburðar fangavarðar sem sagði Sigurð hafa tjáð sér að hann hefði verið „í heilmikilli neyslu“.

Þá benti hann á þá staðreynd, að Sigurður fékk ekki læknisskoðun við komu í fangelsið daginn fyrir andlátið, eins og honum hafi samt sem áður borið að fá.

Lyfið sennileg skýring

Sagði hann Börk hafa haft áhyggjur af því, þegar hann var fyrst yfirheyrður, og vakið máls á því fyrstur manna, að Sigurður hefði ekki fengið umrædda læknisskoðun.

Rifjaði hann það einnig upp, að Sigurður hafði fengið lyf hjá öðrum fanga skömmu fyrir andlátið, og sá fangi borið fyrir Héraðsdómi að lyfið gerði manni meðal annars bumbult. Sigurður hafi enda lýst fyrir Berki og Annþóri að honum liði illa og væri óglatt.

Sagði verjandinn lyfið ef til vill sennilega skýringu á andláti Sigurðar.

Í öllu falli væri það mjög háskalegt, að reisa sakfellingu á jafn veikum grunni og til staðar væri í þessu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka