Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari fer fram á að bæði Annþór Karlsson og Börkur Birgisson fengju 12 ára fangelsisdóm fyrir að hafa banað Sigurði Hólm samfanga sínum á Litla-Hrauni í maí 2012. Annþór og Börkur voru báðir sýknaðir í héraðsdómi, en saksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og var það tekið fyrir þar í dag.
Verjendur beggja kröfðust þess að dómur héraðsdóms yrði staðfestur en til var að vægustu refsingu yrði beitt ef svo vildi til að þeir yrðu fundnir sekir í málinu.
Í héraðsdómi var einnig farið fram á 12 ára fangelsi yfir þeim báðum.
Tvímenningarnir voru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar í fangaklefa hans á Litla-Hrauni 17. maí árið 2012. Þeir hafi í sameiningu veist að honum og veitt honum högg eða spark sem hafi valdið því að rof kom á milta hans. Innvortis blæðing hafi dregið hann til dauða. Annþór og Börkur hafa alla tíð neitað sök.
Verjendur Annþórs og Barkar héldu því fram að það hafi verið mikil fíkniefnaneysla Sigurðar sem dró hann til dauða í fangelsinu. Rofið á miltanu hafi komið til við endurlífgunartilraunir sem voru gerðar á honum í fangaklefanum. Engin vitni voru að meintri árás Annþórs og Barkar á Sigurð.