Magnús Heimir Jónasson
Ransomware-vírusum sem halda tölvugögnum í gíslingu gegn lausnargjaldi hefur fjölgað hratt að undanförnu. Tölvuþrjótar nota svokallaðar netveiðar til að blekkja fólk og fá það til að smella á hlekki og komast þeir þannig yfir viðkvæm gögn.
Samkvæmt rannsókn tölvuöryggisfyrirtækisins Syndis eru Íslendingar auðveld bráð tölvuþrjóta, en fyrirtækið sendi tölvupósta á 1300 einstaklinga til að athuga hlutfall þeirra sem smella á hlekki.
Samkvæmt upplýsingum frá alríkislögreglu Bandaríkjanna var áætlað að milljarður bandaríkjadala hefði verið greiddur í lausnargjald í fyrra.
Samkvæmt nýlegri rannsókn tölvufyrirtækisins IBM, á 600 fyrirtækjum, greiddu 70% þeirra sem lent höfðu í ransomware lausnargjald. „Þetta hefur aukist gríðarlega. Svik hafa verið til frá upphafi. Nú hafa þau færst yfir í tölvuheiminn og það er til nóg af fólki sem vill stunda svona rafræn svik,“ segir Theódór Ragnar Gíslason, öryggisráðgjafi og meðstofnandi Syndis.