Pétur Pétursson, hagfræðingur og fyrrverandi forstjóri Lýsis hf., lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 2. mars, 86 ára að aldri.
Pétur fæddist í Reykjavík 8. febrúar 1931, yngsti sonur hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Péturs Magnússonar frá Gilsbakka, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ráðherra. Þau bjuggu á Hólavelli við Suðurgötu.
Pétur varð stúdent frá MR 1951 og fór þaðan til Bandaríkjanna. Hann nam hagfræði við Wisconsin-háskóla. Að námi loknu kom hann heim aftur og tók við stjórn Lýsis. Pétur kom mjög að fyrirtækjarekstri, þar á meðal Norðurstjörnunnar í Hafnarfirði og Hydrol hf., stofnaði ásamt fleirum Fóðurblönduna hf., og var frumkvöðull er hann gekkst fyrir byggingu Kornhlöðunnar hf. Einnig kom hann að rekstri ÍSAGA. Þá sat hann í ýmsum nefndum og ráðum sem sneru að atvinnuvegum. Hann átti alla tíð farsælan feril í viðskiptum.
Pétur kvæntist Erlu Tryggvadóttur á námsárunum í Bandaríkjunum og áttu þau fjögur börn; Sigríði Svönu, Arndísi Erlu, Tryggva og Katrínu. Þau slitu samvistum.
Seinni kona Péturs var Björk Elín Jónsdóttir. Hennar dóttir er Bryndís Dagsdóttir.