Óháðar afurðastöðvar geti keypt 20% hrámjólkur

Helsta breyting frá núgildandi ákvæðum búvörulaga eru að afurðastöðvum í …
Helsta breyting frá núgildandi ákvæðum búvörulaga eru að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði verður óheimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. mbl.is/Þorkell

Samkvæmt lagafrumvarpi sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur látið vinna um breytingu á búvörulögum og búnaðarlögum munu öll fyrirtæki í mjólkuriðnaði geta keypt mjólk með sama tilkostnaði og markaðsráðandi afurðastöð. Þá verður  markaðsráðandi afurðastöð skylt að safna og taka við allri hrámjólk sem henni býðst frá mjólkurframleiðendum og eins verður henni skylt að selja óháðum afurðastöðvum og vinnsluaðilum hrámjólk sem nemur allt að 20% af þeirri hrámjólk sem hún tekur við.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu sem segir frumvarpsdrögin mæla fyrir um frávik frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn, en frumvarpið er til umsagnar til og með 17. mars.

Helsta breyting frá núgildandi ákvæðum búvörulaga eru að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði verður óheimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða.

Þá verður afurðastöðvum einnig óheimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.

Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir að verð hrámjólkur verði áfram ákveðið af verðlagsnefnd og að eftirlit með markaðsráðandi afurðastöð verði í höndum Samkeppniseftirlitsins.        

Við vinnslu frumvarpsins var tekið mið af tillögum Samkeppniseftirlitsins, sem og hvernig skipulagi fyrir mjólkuriðnaðinn er háttað í Noregi og Hollandi. 

Í tilkynningunni segir enn fremur að unnið sé nú að því í ráðuneytinu að móta tillögur um það hvernig best verði staðið að ráðstöfun innflutningskvóta með hliðsjón af hagsmunum neytenda. Verði tillögur að breytingum þess efnis kynntar sérstaklega þegar þær liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert