Deutsche Bank samdi við Kaupþing um að greiða 400 milljónir evra, eða sem samsvarar 46 milljörðum króna, vegna krafna þrotabúsins sem tengdust svokölluðu CLN-máli. Með þessu fellur Kaupþing frá kæru og málið verður ekki rifjað upp í dómstólum. Heildarkrafa þrotabúsins var 500 milljónir og því ljóst að bankinn greiddi stærstan hluta kröfunnar. Þetta kemur fram í Speglinum á Rúv.
Málið tengist beint einu af hrunmálunum svokölluðu hér á landi, CLN-málinu (sem einnig hefur verið nefnt Chesterfield-málið). Í því voru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, ákærðir fyrir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Management Group S.A. og eignarhaldsfélaga þeirra, samanlagt 510 milljónir evra haustið 2008. Það jafngilti nærri 70 milljörðum króna miðað við gengi evru 7. október 2008. Í ákæru málsins taldi saksóknari meðal annars að allt féð væri tapað.
Lánin voru notuð til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf (CLN) sem tengd voru skuldatryggingarálagi Kaupþings. Þegar harnaði á dalinn og Deutsche bank hóf veðköll vegna málsins var félögunum Chesterfield og Partridge lánað beint 250 milljónir evra til að mæta veðköllunum.
CLN bréfin voru í báðum tilfellum tvöfalt skuldsett eða tvöfalt voguð, en það þýddi að Deutsche bank tók í upphafi áhættu á móti félögunum Chesterfield og Partridge, en samkvæmt skilmálum bréfanna gat bankinn kallað eftir viðbótarfjárframlögum frá félögunum, allt að 125 milljónum evra í hvoru tilviki, ef skuldatryggingarálag Kaupþings hækkaði upp fyrir ákveðin mörk. Sú varð raunin og í framhaldi af því lánaði Kaupþing Chesterfield og Partridge þessar upphæðir í nokkrum skrefum, meðal annars að hluta til eftir að neyðarlán Seðlabankans hafði verið veitt 6. október.
Þremenningarnir voru sýknaðir af ákærum saksóknara í héraðsdómi í janúar í fyrra, en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og bíður nú afgreiðslu þar.
Í frétt Spegilsins kemur fram að ein hlið þessa máls, sem ákæra saksóknara hér á landi hafi ekki náð til sé þáttur Deutsche bank. Það er aðkoma bankans bæði að því að vera miðlari og að vera mótaðili í því veðmáli sem skuldatryggingar eru. Sagt er frá því að skiptastjóri félaganna hafi óskað eftir skýringum frá bankanum á tilgangi viðskiptanna en ekki fengið svör og því farið í mál til að fá svör og aðgang að gögnum. Það mál vannst.
Bent er á í umfjöllun Spegilsins að með því að greiða kröfuna að mestu með því skilyrði að Kaupþing falli frá málinu komist bankinn hjá því að rifja upp málið. Ljóst sé að bankinn hafi tekið þátt í viðskiptunum, starfsmenn hans vitað að þeir væru að blekkja markaðinn og þeir lagt á ráðin og vitað að Kaupþing fjármagnaði viðskiptin. Þetta komi ekki heim og saman við framburð bankans í dómsmáli árið 2012 eða framsetningu í ársskýrslu.