„Ef þú þurftir einhverja frekari ástæðu til að elska hina litlu en öflugu íslensku þjóð, er hér ein í viðbót: Ísland er nýorðið fyrsta ríki heimsins til að skylda fyrirtæki til að sanna að þau greiði jöfn laun óháð kyni, kynþætti, kynhneigð og þjóðerni.“
Svona hljómar innslag á vef breska dagblaðsins Guardian, þar sem fylgst er með alþjóðlegum degi kvenna um allan heim.
Er þá vitnað í tilkynningu frá félags- og jafnréttismálaráðuneytinu, þar sem jafnlaunavottunin svokallaða er útskýrð, en fyrirtækjum og stofnunum sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri verður með henni gert skylt að undirgangast jafnlaunavottun samhliða ársreikningsskilum.
Enn fremur er haft eftir Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, að sem land höfum við sett okkur það markmið að útrýma launamun kynjanna fyrir árið 2022.
„Þetta er rétti tíminn til að gera eitthvað róttækt í þessum efnum. Við viljum sýna heiminum að útrýming kynbundins launamuns er markmið sem hægt er að ná, og vonum að aðrar þjóðir fylgi í kjölfarið með því að innleiða jafnlaunavottunina á komandi árum.“
The Guardian vísar líka til þess að Ísland hafi langa og glæsta sögu að baki þegar kemur að því að vera í fararbroddi í jafnréttismálum kynjanna. Síðustu átta ár hafi það þannig verið efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins þar sem launamunur kynjanna er metinn.
Tímaritið The Economist hafi þá nýlega sagt Ísland vera besta stað heimsins fyrir vinnandi konur. Í samanburði hafi Bretland lent í 24. sæti.