Guardian lofar jafnlaunavottun Íslands

Frá kvennafrídeginum á síðasta ári.
Frá kvennafrídeginum á síðasta ári. mbl.is/Golli

„Ef þú þurftir einhverja frekari ástæðu til að elska hina litlu en öflugu íslensku þjóð, er hér ein í viðbót: Ísland er nýorðið fyrsta ríki heimsins til að skylda fyrirtæki til að sanna að þau greiði jöfn laun óháð kyni, kynþætti, kynhneigð og þjóðerni.“

Svona hljómar innslag á vef breska dagblaðsins Guardian, þar sem fylgst er með alþjóðlegum degi kvenna um allan heim.

Er þá vitnað í tilkynningu frá félags- og jafnréttismálaráðuneytinu, þar sem jafnlaunavottunin svokallaða er útskýrð, en fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um sem hafa 25 starfs­menn eða fleiri verður með henni gert skylt að und­ir­gang­ast jafn­launa­vott­un sam­hliða árs­reikn­ings­skil­um. 

Enn fremur er haft eftir Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, að sem land höfum við sett okkur það markmið að útrýma launamun kynjanna fyrir árið 2022.

„Þetta er rétti tíminn til að gera eitthvað róttækt í þessum efnum. Við viljum sýna heiminum að útrýming kynbundins launamuns er markmið sem hægt er að ná, og vonum að aðrar þjóðir fylgi í kjölfarið með því að innleiða jafnlaunavottunina á komandi árum.“

The Guardian vísar líka til þess að Ísland hafi langa og glæsta sögu að baki þegar kemur að því að vera í fararbroddi í jafnréttismálum kynjanna. Síðustu átta ár hafi það þannig verið efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins þar sem launamunur kynjanna er metinn.

Tímaritið The Economist hafi þá nýlega sagt Ísland vera besta stað heimsins fyrir vinnandi konur. Í samanburði hafi Bretland lent í 24. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert