Lögmaður Fögrusala ehf. segir það ljóst að 60 daga frestur ríkisins til að nýta sér forkaupsrétt á jörðinni Felli í Suðursveit hafi verið liðinn þegar ríkið keypti jörðina. Málið muni fara sína leið í dómskerfinu.
Fögrusalir keyptu Fell 4. nóvember en ríkið hafði þá lögum samkvæmt 60 daga til að ganga inn í kauptilboðið. 66 dögum síðar tilkynnti ríkið að það hygðist ganga inn í kauptilboðið.
„Við óskuðum eftir því að Héraðsdómur Suðurlands myndi fjalla um þá ákvörðun sýslumannsins um að fallast á forkaupsréttinn,“ segir Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Fögrusala, í samtali við mbl.is. Héraðsdómur taldi að ágreiningurinn ætti ekki við um nauðungarsölulögin og vísaði málinu frá.
„Við kærðum það til Hæstaréttar og Hæstiréttur er að fjalla um það; hvort þetta eigi undir málsmeðferðarreglur nauðungarsölulaga,“ bætir Hróbjartur við og segir að ef niðurstaða Hæstaréttar verða á sama veg og Héraðsdóms verði farið í almennt mál.
„Við sjáum ekki, hvernig sem þetta er talið, að tilkynningin um forkaupsréttinn hafi komið áður en fresturinn var liðinn.“