Annþór Karlsson og Börkur Birkisson voru sýknaðir í Hæstarétti í dag af því að hafa banað Sigurði Hólm, samfanga sínum á Litla-Hrauni. Staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms. Tveir dómarar greiddu sératkvæði.
Annþór og Börkur voru ákærðir fyrir að hafa banað Sigurði í maí 2012. Þeir voru báðir sýknaðir í héraðsdómi en ákæruvaldið áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari fór fram á að báðir yrðu dæmdir í 12 ára fangelsi. Verjendur Annþórs og Barkar kröfðust þess hins vegar að dómur héraðsdóms yrði staðfestur en til vara að þeir fengju vægustu refsingu ef Hæstiréttur dæmdi þá seka.
Í ákæru málsins sagði að tvímenningarnir hefðu veist að Sigurði og veitt hönum högg eða spark sem hefði valdið rofi á milta. Innvortis blæðing hefði dregið Sigurð til dauða.
Héraðsdómur komst m.a. að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að færa viðhlítandi sönnur á, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að Annþór og Börkur hefðu valdið dauða Sigurðar.
Þá vísar rétturinn til niðurstöðu héraðsdóms, sem ályktaði að ekki væri hægt að útiloka að fall í fangaklefanum hefði orsakað rof á milta Sigurðar, sem dró hann til dauða. Byggðist mat dómstólsins á vitnisburði sérfræðinga.
Tveir hæstaréttardómarar skiluðu séráliti, Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason. Töldu þeir rétt vegna sönnunarmatsins í hinum áfrýjaða dómi að hann yrði ómerktur svo munnleg sönnunarfærsla gæti farið fram á ný.
Annþór og Börkur hafa ávallt neitað sök og verjendur þeirra héldu því fram að Sigurður hefði í raun látist vegna mikillar fíkniefnaneyslu. Rofið á miltanum hefði komið til við endurlífgunartilraunir.
Engin vitni voru að meintri árás.
Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar, sagðist að vonum ánægður með málalyktir en í hans huga hefði aldrei leikið vafi á því að um óhapp hefði verið að ræða. Sigurður hafi líklega fengið hjartastopp og endurlífgunartilraunir valdið rofi á milta.
„En það er kannski ekki það sem dómurinn gengur út á heldur þessi sönnunarbyrði. Það er ekki hægt að sýna fram á það að umbjóðandi minn eða Annþór hafi reitt neitt högg, enda ef það væri tilfellið hefði átt að koma fram á innra eða ytra byrðinu áverki sem var hvergi sýnilegur,“ segir Sveinn.
Hann segir mikinn vafa hafa verið uppi í málinu. Börkur sé sáttur við málalok en ekki við það hvernig farið var með sig.
„Það er svo margt sem má nefna til, til dæmis hvernig meðferðin á honum var um tíma í fangelsinu. Hann þurfti að berhátta sig í hvert sinn sem hann fékk heimsóknir; það heitir að leita innanklæða án þess að snerta hann, þá þarf hann að fara úr öllum fötunum. Og það gerði hann í hvert sinn sem sem móðir hans háöldruð og ungur sonur, innan við tveggja ára, komu í heimsókn.“
Berki og Annþór var haldið í gæsluvarðhaldi á öryggisgangi. Sveinn segir ekkert liggja fyrir um það hvort þeir muni leita réttar síns gagnvart ríkinu.
Börkur dvelur nú á Vernd og mun ljúka tíma sínum þar og fara svo út í lífið, eins og Sveinn kemst að orði.