Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Björn Steinbekk af kröfu GAM Management ráðgjafar ehf. um að hann skuli greiða 686 þúsund krónur ásamt dráttarvöxtum vegna miða sem ekki fengust afhentir fyrir leik Íslands og Frakklands á EM í Frakklandi síðasta sumar.
Í yfirliti yfir málsatvik og helstu ágreiningsefni kemur fram að Gísli Hauksson hafi 30. júní 2016 fyrir milligöngu Björns keypt 10 miða á leikinn. Viðræður fóru fram með tölvuskeytum þar sem stefndi notaði netfang hjá Sónar Reykjavík ehf. og skrifað undir sem „Bjorn Steinbekk, Head Promoter“. Greiðsla var innt af hendi á reikning félagsins.
Ekki er um það deilt að miðarnir voru ekki afhentir og samningurinn ekki efndur samkvæmt meginefni sínu. Ástæða þess mun hafa verið sú að erlendur milligönguaðili stóð ekki við afhendingu miðanna.
Meginágreiningurinn sneri að því hvort Björn hafi selt miðana í eigin nafni og hann beri því persónulega ábyrgð á miðasöluklúðrinu eða hvort hann hafi eingöngu komið fram fyrir hönd fyrirtækisins Sónar Reykjavík ehf. við viðskiptin.
Héraðsdómur úrskurðaði að Björn hafi ekki selt miðana í eigin nafni. „Samkvæmt öllu framangreindu telur dómurinn nægilega sannað að viðsemjanda stefnda mátti vera ljóst að kaupsamningur væri gerður við stefnda fyrir hönd Sónar Reykjavík ehf. Verður því að leggja til grundvallar að téð einkahlutafélag hafi verið seljandi miðanna og ábyrgt fyrir efndum kaupsamningsins,“ segir í dómnum.
Málið var upphaflega einnig höfðað gegn Sónar Reykjavík ehf. en ekki var sótt þing af hálfu félagsins. Í ljósi upplýsinga sem komu fram við aðalmeðferð málsins um að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og skiptum hefði verið lokið, ákvað stefnandi að falla frá öllum kröfum gegn félaginu.