Sveitarstjórn Djúpavogshrepps efndi til fundar á brú við botn Berufjarðar nú fyrir stundu og samþykkti þar samhljóða ályktun þar sem þess er krafist að samgönguráðherra og Alþingi sameinist um að koma framkvæmd við nýjan veg um svæðið í útboð nú þegar.
Veginum um brúna var lokað af mótmælendum en að sögn blaðamanns Morgunblaðsins sem er á vettvangi eru þar nú um 30 bílar, sumir í mótmælaskyni en aðrir fastir vegna mótmælaaðgerðanna.
Þeirra á meðal eru erlendir ferðamenn sem hafa lýst óánægju með tafirnar.
Í ályktun sinni skorar sveitarstjórnin á samgönguráðherra og Alþingi „að standa við nýsamþykkta samgönguáætlun og efna þannig gefin loforð fyrir kosningar. Yfirlýsingar samgönguráðherra í fjölmiðlum um að mótmæli íbúa í Djúpavogshreppi muni engu breyta varðandi niðurskurð við botn Berufjarðar eru þess eðlis að þær geta ekki annað en haft þveröfug áhrif á allt samfélagið á Austurlandi. Samgönguyfirvöldum ásamt þingheimi er löngu kunnugt um ástand mála á þjóðvegi 1 við botn Berufjarðar. Ráðherra samgöngumála þarf því ekki að láta hörð mótmæli við niðurskurðartillögum á þessari framkvæmd koma sér á óvart. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps krefst þess því að samgönguráðherra og Alþingi sameinist um að koma framkvæmdum við nýjan veg um botn Berufjarðar í útboð nú þegar.“