Markmið ríkisins með kaupunum á Felli í Suðursveit er að jörðin verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Ríkið nýtti sér forkaupsrétt sinn að jörðinni í janúar en málið er fyrir dómstólum.
Jón Geir Pétursson hjá umhverfisráðuneytinu segir að verið sé að vinna að því að jörðin verði hluti af þjóðgarðinum. „Til að það sé engin óvissa uppi um hvað er þarna núna þá er búið að fela þjóðgarði umsjón á jörðinni fyrir hönd ríkisins, meðan það er verið að vinna að því að formfesta hana inn í þjóðgarðinn,“ segir Jón.
Fögrusalir keyptu Fell 4. nóvember síðastliðinn en ríkið hafði þá lögum samkvæmt 60 daga til að ganga inn í kauptilboðið. 66 dögum síðar tilkynnti ríkið að það hygðist ganga inn í kauptilboðið. Lögmaður Fögrusala staðfesti í samtali við mbl.is í gær að málið færi sína leið fyrir dómstólum.