„Vægi samræmdu prófanna er orðið meira. Það horfir því einkennilega við að ekki sé prófað úr öllum matsviðmiðum samkvæmt aðalnámskrá eins og ritun,“ segir Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtsskóla, um samræmd könnunarpróf sem nemendur í 9. og 10. bekk taka í fyrsta skipti rafrænt.
„Upplýsingarnar voru að tínast til fram að síðustu stundu,“ segir Jón aðspurður hvernig upplýsingagjöf um prófið hafi verið háttað til skólans frá Menntamálastofnun og ráðuneytinu.
Jón gagnrýnir harðlega að ekki hafi verið prófað í ritun í íslensku því ritun sé stór hluti af matsviðmiðunum. „Ef ritunin er tekin úr prófinu rýrast prófin. Ef þau eiga að vera aðgangsmiði inn í framhaldsskólann er líka verið að rýra þau,“ segir Jón.
Hann bendir einnig á að þar sem hægt er að nota könnunarprófin fyrir 9. bekk sem stökkpall beint inn í framhaldsskólann, að því gefnu að nemandi hafi náð hæfniviðmiðunum, sé einkennilegt að ekki sé prófað úr öllu matsviðmiði námskrárinnar.
Þessi ákvörðun um að prófa ekki ritun gengur í berhögg við ráðleggingar fagráðs um náms- og gæðamat Menntamálastofnunar sem Jón situr í ásamt fjórum öðrum. Allir sem sitja í ráðinu gáfu umsögn um það hvort ritunin ætti að vera á könnunarprófinu. Að minnsta kosti fjórir af fimm sögðu að ritunarhluti ætti að vera inni, samkvæmt vitneskju Jóns. Hann sagðist hafa fengið þær upplýsingar að þeirra mat yrði skoðað áður en ákvörðun yrði tekin.
Jón bendir á að í svörum Menntamálastofnunarinnar, um að ekki væri prófað í ritun, fengust þau svör að ritunin væri ekki inni „að höfðu samráði við fagráð matsviðs,“ segir Jón og vitnar í útskýringar Menntamálastofnunar. „Ég upplifi þetta sem algjört sýndarsamráð,“ segir Jón og bendir á að þetta sé ekki rétt í svörum stofnunarinnar.
„Hlutverk fagráðanna er að vera stofnuninni til ráðgjafar og aðstoðar svo hún geti sem best sinnt lögbundnu hlutverki sínu.“ Þetta segir á vef Menntamálastofnunar. Fagráðin eru skipuð í samræmi við lög um Menntamálastofnun og reglugerð um fagráð stofnunarinnar. Fagráðið tók til starfa í febrúar.
Jón gagnrýnir einnig að framhaldsskólar geti óskað eftir upplýsingum úr könnunarprófi þegar nemendur eru teknir inn í skólann. Þessi breyting var gerð með reglugerð frá menntamálaráðuneytinu og gefin út 11. janúar síðastaliðinn.
Jóni finnst einnig einkennilegt að framhaldsskólar geti horft til þessa prófs í ljósi þess að yfirlýst markmið könnunarprófsins sé að veita nemendum endurgjöf á hvar þeir standa á þeim tíma og hafi síðasta árið í grunnskóla til að bæta sig. Jón lét nemendur og forráðamenn þeirra vita um leið reglugerðin birtist á vefsíðu menntamálaráðuneytisins.
Börkur Vígþórsson, skólastjóri Ölduselsskóla, tekur í sama streng og Jón og er ósammála því að framhaldsskólar geti notað prófið. „Það kom mér á óvart að nemendur í 10. bekk þyrftu að taka prófið því ég get ekki séð að þeir geti nýtt sér niðurstöðurnar á þessum stutta tíma,“ segir Börkur. Hann bendir einnig á að það skjóti skökku við að framhaldsskólar geti skoðað niðurstöður prófsins sem væru þá ársgamlar hjá nemendum sem eru nú í 9. bekk.
Börkur segir skringilegt að hafa þurft að láta tvo árganga þreyta sama prófið. Í báðum þessum skólum taka nemendur prófin á fjórum dögum því árgangarnir eru stórir og tölvukosturinn ekki nægilegur svo unnt sé að prófa alla í einu. Það hefur gengið nokkuð vel fyrir sig en þetta er í fyrsta sinn sem það er lagt fyrir rafrænt. Í Ölduselsskóla taka nemendur prófið á borðtölvu en í Réttarholtsskóla nota þeir spjaldtölvur.
Prófið er í tveimur hlutum; í fyrra prófinu er íslenska og enska og í því seinna er stærðfræði og enska. Það fá ekki allir nemendur sömu útgáfu af prófinu því tvær gerðir eru af sama prófinu.
Börkur og Jón segjast ekki vita til þess að nemendur hafi rætt prófefnið sín á milli eftir prófin. Þeir eru þó báðir sammála um að þrátt fyrir að nemendur taki ekki sama prófið þá geti stálminnugir nemendur rætt prófatriðin eftir prófið við aðra. Í því ljósi sé ekki heppilegt að allir nemendur taki ekki prófið á sama tíma en þeir benda báðir á að þetta sé í fyrsta og líklega síðasta skipti sem þetta er með þessum hætti.