Fréttir þess efnis að Deutsche Bank hafi samið við þrotabú Kaupþings um greiðslu á 400 milljónum evra, eða sem samsvarar 46 milljörðum króna, vegna krafna þrotabúsins sem tengdust svokölluðum CLN-viðskiptum, eru ekki til þess fallnar að styrkja kenningar ákæruvaldsins í máli gegn fyrrverandi yfirmönnum Kaupþings. Þetta segir Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings.
Greint var frá því í vikunni að Deutsche bank hefði samið við þrotabúið um greiðsluna gegn því að fallið yrði frá kröfum á hendur bankanum vegna viðskiptanna. Hafði þrotabúið ætlað að fara með málið fyrir dómstóla sem hefði væntanlega leitt til þess að frekari gögn um málið kæmu í dagsljósið.
Viðskiptin hafa einnig komið við sögu í dómsmálum hér á landi, en héraðssaksóknari höfðaði mál gegn þremur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings fyrir umboðssvik með því að hafa látið viðskiptavini bankans njóta hagsmuna á kostnað bankans.
Hörður segir þessar fréttir frá Deutsche Bank vekja athygli, ekki síst þegar horft sé til þeirra ásakana sem séu settar fram í ákæru málsins. „Við rannsókn og meðferð þess máls greindi umbjóðandi minn frá því að gengið hafi verið til þessara viðskipta á grundvelli ráðlegginga frá Deutsche Bank, sem var einn stærsti og mikilvægasti fjármögnunaraðili Kaupþings á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þessi lýsing umbjóðanda míns á tildrögum viðskiptanna er sönn og rétt, líkt og uppgjör Deutsche Bank nú hlýtur að staðfesta. Það rímar afar illa við fullyrðingar ákæruvalds um að til viðskiptanna hafi verið gengið með það að markmiði að skaða Kaupþing og auðga viðskiptavini bankans,“ segir Hörður.
Í ákæru og við aðalmeðferð málsins við héraðsdóm kom fram hjá ákæruvaldinu að telja mætti víst að upphæðin væri með öllu glötuð Kaupþingi. „Þá er ljóst að með uppgjörinu er einnig staðfest að fullyrðingar í ákæru um að þeir fjármunir sem varið var til viðskiptanna séu Kaupþingi að öllum líkindum að fullu glataðir eru rangar,“ segir Hörður og bætir við: „Fréttir vikunnar eru ekki beinlínis til þess fallnar að styrkja þær kenningar sem ákæruvaldið hefur haft uppi í þessu máli.“
Í CLN-málinu (sem einnig hefur verið nefnt Chesterfield-málið) voru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, ákærðir fyrir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Management Group S.A. og eignarhaldsfélaga þeirra, samanlagt 510 milljónir evra haustið 2008. Það jafngilti nærri 70 milljörðum króna miðað við gengi evru 7. október 2008. Þeir voru allir sýknaðir í héraðsdómi, en ákæruvaldið áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar og bíður það nú þess að komast á dagskrá.