Ekkert nýtt hefur komið fram um hvar Artur Jarmoszko gæti verið en lögreglan er að fara yfir gögn úr síma hans. Ekki er hægt að óska eftir því að formleg leit að honum hefjist fyrr en einhverjar upplýsingar koma fram en ekkert hefur spurst til Arturs síðan seint um kvöld 28. febrúar. Þá sást hann á eftirlitsmyndavél í miðborginni.
Bætt inn klukkan 18:10
Eftirgrennslan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í máli Arturs Jarmoszko hefur ekki enn borið árangur. M.a. hefur verið rætt við fjölskyldu hans og vini til að reyna að varpa ljósi á ferðir og/eða fyrirætlanir Arturs. Á litlu er að byggja enn sem komið er, en málið er tekið föstum tökum hjá lögreglu sem skoðar m.a. tölvu- og símagögn í leit að vísbendingum. Lögreglan fundaði með Landsbjörgu í dag, en ákvörðun um leit að Arturi hefur ekki verið tekin.
Lögregla er búin að ræða við meðleigjanda, fjölskyldu og vini Arturs og virðist enginn hafa hugmynd um hvar hann sé niðurkominn. Guðmundur Páll segir ekkert benda til þess að refsivert athæfi hafi átt sér stað, né heldur að Artur sé farinn úr landi.
Artur er pólskur en hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið. Hann er 186 sm hár og með græn augu og stutt dökkt hár. Hann er talinn vera klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hans eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða í einkaskilaboðum á Facebook, eða senda póst á gudmundur.pall@lrh.is.