Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir að fá upplýsingar úr síma Arturs Jarmoszko frá símafyrirtæki hans. Ekkert hefur spurst til Arturs frá því hann sást í öryggismyndavél í miðborginni rétt fyrir miðnætti 1. mars síðastliðinn.
„Við erum búin að halda fund með Landsbjörg í morgun og björgunarsveitarmenn eru tilbúnir að hefja leit,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
„Ég kallaði út saksóknara í morgun og hann er búinn að gera kröfu um rakningu á síma Arturs og hún er farin niður í dóm,“ sagði Guðmundur Páll. Hann kveðst ekki eiga von á öðru en að dómari samþykki beiðnina sem hljómar upp á upplýsingar um hringingar í og úr símanum og staðsetningu símans.
Farið verður með beiðnina upp í Nova um leið og dómari hefur staðfest hana. Þá geta þeir hugsanlega séð á hvaða mastri síminn var þegar hann var síðast í notkun,“ segir hann og kveður Landsbjörg tilbúna að leita út frá þeim stað og að sú leit hefjist strax í dag.
Lögregla er þá einnig komin með tengilið inn í samfélag Pólverja á Íslandi og um hádegi var birt tilkynningu á pólsku á Facebook-síðu lögreglunnar.
Lögregla er búin að ræða við meðleigjanda, fjölskyldu og vini Arturs og virðist enginn hafa hugmynd um hvar hann sé niðurkominn. Guðmundur Páll segir ekkert benda til þess að refsivert athæfi hafi átt sér stað, né heldur að Artur sé farinn úr landi.
Artur er pólskur en hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið. Hann er 186 sm hár og með græn augu og stutt dökkt hár. Hann er talinn vera klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hans eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða í einkaskilaboðum á Facebook, eða senda póst á gudmundur.pall@lrh.is.