Sundabraut passar gjaldtöku ráðherra

Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir borgarbúa þurfa að vera raunhæfa varðandi …
Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir borgarbúa þurfa að vera raunhæfa varðandi óskir um legu Sundabrautar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sundabraut er vegaframkvæmd sem vel gæti fallið undir gjaldtökuhugmyndir Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra. Þetta staðfesti ráðherrann í þættinum Víglínan á Stöð 2 í hádeginu. „Sundabraut er stórmál,“ sagði Jón.

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi kvaðst hins vegar ekki vita hversu mikilvæg Sundabraut sé, það hafi komið sér á óvart að Mosfellingar lögðu ekki jafnmikla áherslu á hana og hann hefði ætlað. „Ég ætla þó ekki að gera lítið úr því að hún sé mikilvæg til framtíðar, enda var ákveðið við gerð síðasta aðalskipulags að taka hana ekki í burtu,“ sagði hann.

Verða að vera raunsæ varðandi kostnað Sundabrautar

Ráðherrann segir borgaryfirvöld þó verða að vera raunsæ varðandi kostnaðarhlutann í því hvaða leiðir standi til boða.  „Þessi ytri leið hún kostar okkur kannski um 100 milljarða á meðan við getum gert innri leiðina fyrir 50 milljarða. Það verður auðvitað að vera eitthvað raunsæi í því. Þessi þjóð getur ekkert hagað sér þannig þegar það kemur að útgjöldum fyrir þennan málaflokk frekar en aðra. Við verðum að vera raunsæ og skynsöm í því.“

Hugmyndir Jóns um vegatolla hafa verið í umræðunni undanfarið. „Þessi hugmynd þarf aðeins að þroskast og fá góða umræðu,“ sagði hann og staðfesti að hugmyndir sínar um gjaldtöku á stofnleiðum frá höfuðborginni feli í sér að fé til samgöngumála á fjárlögum yrði þá nýtt í framkvæmdir annars staðar.

Sagði hann, líkt og áður hefur komið fram, að ráðuneytið sé nú að vinna að því að skilgreina höfuðleiðir út úr höfuðborginni, frá Keflavíkurflugvelli að Hafnarfirði, suður um land austur á Selfoss og svo vestur um og upp í Borgarnes.

„Á öllum þessum leiðum eru mjög fjárfrekar framkvæmdir sem verður að bregðast við,“ sagði Jón og nefndi slysin á Reykjanesbraut sem dæmi. „Ef hægt er að taka þessar fjárfreku framkvæmdir út fyrir sviga og fjármagna þær frekar með gjaldtöku, sem yrði þá að vera hófleg gagnvart þeim sem fara oft um. Þá værum við að horfa til ferðamannastraumsins, sem er rót vandans, og láta ferðamennina taka sem mestan þátt í uppbyggingunni.“

Ekki ósammála gjaldtökuhugmyndum

Gjaldtökuhugmyndin mætti vissum skilningi hjá Hjálmari sem segist ekki ósammála hugmyndinni um vegatolla. „Þetta er þekkt aðferð víða um heim,“ sagði hann.

„Út frá prinsippinu þá er ekki óeðlilegt að þeir sem nýta ákveðna innviði mest borgi heldur meira en þeir sem nota þá aldrei.“ Eins sé rétt hjá ráðherra að jafnmikil aukning ferðamanna og verið hefur hafi breytt hlutunum. Nefndi hann sem dæmi að borgaryfirvöld hefðu hækkað einskiptisgjald í sund til að niðurgreiða ekki sundferðir ferðamanna. „Þetta eru aðferðir sem ferðamannaborgir nota til að fá eitthvað á móti þeim mikla kostnaði sem ágangur ferðamanna felur í sér.

Ég hef því skilning á þessu í prinsippinu, en ég hef efasemdir um að slíkur tollur yrði notaður til framkvæmda einhvers staðar annars staðar á landinu.  Ég held að margir Reykvíkingar myndu telja að það gangi ekki,“ sagði Hjálmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert