Í háskóla lífsins á Kvískerjum

Hálfdán Björnsson á traktornum dregur f.v. Gísla Benediktsson, Garðar Þór …
Hálfdán Björnsson á traktornum dregur f.v. Gísla Benediktsson, Garðar Þór Brandsson, Guðbrand Sigurðsson og Sigrúnu Axelsdóttur á sérsmíðuðum vatnaskíðum. Ljósmynd/Helgi Björnsson

Öræfasveit var um aldir ein einangraðasta sveit Íslands. Að baki var Vatnajökull, fyrir framan ólgandi Atlantshafið og til beggja handa runnu stríð jökulvötn um víðfeðma sanda. Einangrun Öræfa var endanlega rofin með opnun hringvegarins og Skeiðarárbrúar árið 1974.

Kvísker eru austasti bærinn í Öræfum og kúra undir Bæjarskeri. Breiðamerkursandur breiðir úr sér framan við bæinn og beggja vegna við hann. Á Kvískerjum bjuggu hjónin Björn Pálsson (f. 1879, d. 1953) og Þrúður Aradóttir (f. 1883, d. 1968). Þau eignuðust þrettán börn og komust níu á legg. Þau voru Flosi (f. 1906, d. 1993), Guðrún eldri (f. 1908, d. 1991), Ari (f. 1909, d. 1982), Guðrún yngri (f. 1910, d. 1999), Páll (f. 1914, d. 1993), Sigurður (f. 1917, d. 2008), Ingimundur (f. 1921, d. 1962), Helgi (f. 1925, d. 2015) og Hálfdán (f. 1927, d. 2017). Einnig ólst upp á Kvískerjum Finnbjörg Guðmundsdóttir (f. 1941, d. 2002). Með andláti Hálfdáns 10. febrúar síðastliðinn lauk sögu þessarar stóru fjölskyldu.

Guðrún Björnsdóttir eldri á heimleið eftir að hafa gefið kálfunum …
Guðrún Björnsdóttir eldri á heimleið eftir að hafa gefið kálfunum að drekka. mbl.is/Rax

Mikið menntaheimili

Fjórir Kvískerjabræðra voru sjálfmenntaðir fræðimenn og nutu mikillar virðingar fyrir þekkingu sína. Flosi lagði stund á jökla- og náttúrufræði. Hann lærði erlend tungumál af málakennslu útvarpsins og orðabókum. Flosi ræddi við erlenda fræðimenn og ferðamenn sem komu að Kvískerjum, oft á þeirra móðurmáli.

Sigurður var mjög vel ritfær og góður sögumaður. Hann skráði m.a. sögu Öræfasveitar og eins frásögn af því þegar hann féll ofan í jökulgeil og hafði ofan af fyrir sér með sálmasöng þar til hann fannst eftir langa leit.

Helgi var mikill hagleiksmaður, góður teiknari og uppfinningamaður. Hann smíðaði m.a. engjahús sem líklega var fyrsta hjólhýsi á Íslandi.

Hálfdán var náttúrufræðingur og þekktur fyrir fjölbreytt náttúrugripasafn og mikla þekkingu á jurta- og dýralífi. Hann átti stærsta skordýrasafn í einkaeigu á Íslandi.

Ari Björnsson og Ragnar Axelsson á hestbaki í leiðangri til …
Ari Björnsson og Ragnar Axelsson á hestbaki í leiðangri til að leita að skúmsungum.

Kvískerjabók var gefin út til heiðurs systkinunum 1998 og umhverfisráðuneytið stofnaði Kvískerjasjóð þeim til heiðurs 2003.

Ekkert systkinanna á Kvískerjum eignaðist afkomendur. Þau tóku þó þátt í uppeldi margra sem komu til þeirra í sumardvöl eða heimsóknir. Morgunblaðið fékk nokkra einstaklinga til að skrifa um kynni sín af Kvískerjaheimilinu og áhrifin sem þau urðu fyrir þar. Millifyrirsagnir eru blaðsins.

Helgi Björnsson skráir hop jökulsins við Fjallsárlón.
Helgi Björnsson skráir hop jökulsins við Fjallsárlón. mbl.is/Rax

Til tunglsins í sveit

Ragnar Axelsson ljósmyndari fór fyrst í sumardvöl til frændfólks síns á Kvískerjum sjö ára gamall, árið 1965. Hann dvaldi þar flest sumur þar til hann var sextán ára. Ragnar hefur hefur heimsótt Kvísker á hverju ári síðan hann kom þar fyrst, stundum oft á ári. Jökulárnar voru óbrúaðar og Öræfin mjög einangruð þegar Ragnar fór þangað í sveit.

„Ég flaug með Douglas DC-3 á Fagurhólsmýri. Fyrir lítinn strák var það eins og að fara til tunglsins! Sigurður Björnsson, Siggi á Kvískerjum, sótti mig á flugvöllinn. Þá var fullt af krökkum á öllum bæjum í Öræfunum. Við vorum flest fimm krakka í einu í sumardvöl á Kvískerjum á meðan ég var þar.

Systkinin á Kvískerjum voru dásamleg, alveg frábært fólk. Bræðurnir Flosi, Sigurður, Helgi og Hálfdán voru vísindamenn hver á sínu sviði. Maður lærði margt af þeim. Ari bróðir þeirra var aðal bóndinn og kunni urmul af sögum. Systurnar Guðrún eldri og Guðrún yngri sáu um heimilishaldið og voru okkur mjög góðar. Ingimundur bróðir þeirra var dáinn þegar ég kom að Kvískerjum. Páll bróðir þeirra ólst upp og bjó á Fagurhólsmýri. Hann spilaði á orgelið í Hofskirkju.

Besti skóli ævinnar

Kvísker voru líklega besti skóli sem ég hef verið í um ævina. Við fórum oft í fjallgöngur. Bræðurnir spurðu mann: Veistu hvað þetta heitir og bentu á stein, pöddu eða jurt. Maður lærði nöfnin utan að og kunni nánast heitin á öllum grösum sem vaxa á Íslandi og eins blómum, fuglum og skordýrum og steintegundum. 

Við vorum með dollu með röri meðferðis. Ef maður sá pöddu þá átti að sjúga hana í gegnum rörið svo hún færi í dolluna. Ég safnaði fiðrildum og pöddum fyrir Hálfdán. Það þýddi ekkert að vera með einhvern pempíuskap við það. Þeir kenndu manni líka á jöklana. Hvað þurfti að varast og annað. 

Það var gaman að fara í kirkju. Fyrst þurfti að sækja séra Fjalar Sigurjónsson á Kálfafellsstað yfir Hrútána, sem var miklu meiri þá en hún er nú. Oft var ofboðsleg rigning og áin illfær. Siggi var oftast bílstjórinn. Hann sá ekki mjög vel og sló ekkert af þótt það væru grafningar eða grjót í veginum. Við hentumst til og frá í jeppanum og það var spurning hver fengi flestar kúlur á hausinn eftir bílferð með Sigga.

Ég fór líka með Sigga í póstferðir. Þegar við keyrðum framhjá Hnappavöllum kom hersing af geltandi hundum að elta bílinn. Siggi teygði sig í startbyssu, stakk henni út um gluggann og skaut upp í loftið. Hundarnir hentust í allar áttir. Þetta var eins og atriði í bíómynd!

 Mikilvægt að vera treyst

Rigningin í Öræfunum var svo hrein að það var gaman þótt það hellirigndi. Helgi smíðaði með mér bát úr tunnu. Bæjarlækurinn varð að stórfljóti í rigningum og maður sigldi á tunnubátnum alveg út að sjó. Ég stundaði „river-rafting“ löngu áður en það varð vinsælt. Svo hljóp maður heim og náði í dráttarvél til að sækja bátinn. Maður gat farið fjórar ferðir yfir daginn og þá voru ekki lengur til þurr föt að fara í! 

Systkinin á Kvískerjum voru svo miklir vinir manns þótt maður væri bara barn. Samt var ekki talað við mann eins og barn heldur eins og jafningja. Þau treystu manni fyrir því að aka dráttarvél, slá og raka, og ganga í þau störf sem þurfti að vinna. Manni var treyst á Kvískerjum þótt maður væri bara krakki. Mér var hleypt einum á hesti yfir Hrútána. Hún var miklu meira vatnsfall þá en hún er nú. Það var dásamlegt að finna þetta traust og það efldi sjálfstraustið. 

Ég var alltaf svo glaður inni í mér á Kvískerjum. Stundum fékk maður heimþrá en hún hvarf fljótt aftur. Það var alltaf svo mikið að gera. Draumur minn var að fá að eiga heima á Kvískerjum þegar ég yrði stór. Þar var lífið í sinni tærustu mynd. 

 Ljósmyndaáhuginn kviknar

Bræðurnir á Kvískerjum voru alltaf að taka ljósmyndir. Pabbi lánaði mér kassamyndavél fyrsta sumarið sem ég fór austur. Svo lánaði hann mér flotta Leica-myndavél og ég tók mikið af myndum í Öræfunum. Helgi teiknaði fjöllin og var alltaf að sýna mér teikningar. Ég reyndi lika að teikna en myndirnar mínar voru hræðilegar að ég tók ljósmyndir í staðinn. Sumar myndirnar vann ég ekki fyrr en nú nýlega. Bræðurnir sýndu manni tröllin í fjöllunum og öll andlitin. Síðan þá hef ég alltaf séð fullt af andlitum í náttúrunni. Það kemur frá Kvískerjaárunum. 

Ég tók myndir af bræðrunum á selveiðum, sem þóttu sjálfsagðar þá en urðu viðkvæmt mál síðar. Þeir báðu mig að vera ekkert að sýna þessar myndir fyrr en eftir þeirra dag. Ég held þeir hafi haft meiri tekjur af selveiðunum en af kindunum. Svo borðuðum við oft selkjöt á Kvískerjum.

Ég er svo þakklátur foreldrum mínum fyrir að hafa fengið að vera á Kvískerjum sem barn. Þau vissu hvað manni væri fyrir bestu. Það er ekki hægt að lýsa því með orðum hversu stórkostlegt þetta var. Ég held að ég búi alla ævi að uppeldinu þar. Enn er margt að rifjast upp fyrir mér eftir öll þessi ár. Ég er reyndar búinn að gleyma því hvað sum grösin og pöddurnar heita en dvölin á Kvískerjum gerði mig ábyggilega að betri manni. 

Á Kvískerjum var gott að vera

Laufey Helgadóttir, ljósmóðir á Smyrlabjörgum, var barn á Hornafirði þegar hún kynntist Sigurði Björnssyni á Kvískerjum. Hann kom tvisvar í viku í heimsókn til ömmu hennar og afa í Odda á Hornafirði. Síðar fór Laufey í sveit að Kvískerjum.

„Sigurður náði í póstinn á Höfn og fór með hann út á Fagurhólsmýri þar sem hann var lesinn í sundur og síðan dreift á bæina í Öræfum. Móðir Kvískerjasystkina, Þrúður Aradóttir, var systir afa míns Hálfdans Arasonar frá Fagurhólsmýri.

Samhent systkini

Ég var svo heppin að vera sex sumur á Kvískerjum. Það hafði mikil áhrif á mig að kynnast þeim, Flosi sem var elstur var mikill fræðimaður, hann dundaði við að læra, þýsku, dönsku,ensku og frönsku og notaði orðabækur á þessum tungumálum. Hann virtist alveg geta talað þessi tungumál, því oft hlustaði ég á hann þar sem hann var að tala við ferðamenn sem þangað komu og eins erlenda jarðfræðinema sem dvöldu með kennurum sínum á Breiðamerkursandi í tjöldum. Flosi skráði niður og fylgdist náið með hvernig skriðjöklarnir höguðu sér. Hann var alvörugefinn en hafði gaman af uppátækjum okkar barnanna.

Ari var þriðji í röðinni og hann var bóndinn á bænum, sá um féð og hafði gaman af því. Ari var glaðlegur og alltaf brosandi. Sigurður var með póstferðirnar og grúskaði mikið í sögunni. Eftir hann liggur mikið sögusafn um strand togara og hvernig þeir voru nýttir innan sveitarinnar. Hann var eins með vatnsmælingar á Fjallsá. Sigurður lét ekkert frá sér fara nema vera hárviss um að dagsetningar og ártöl væru rétt. Hann var alvörugefinn en samt glettin og gott að vinna með honum.

Guðrún eldri var ákaflega skemmtileg kona og hafði gaman af að ferðast um landið. Hún var hlédræg og hafði sig ekki í frammi. Guðrún yngri, alltaf kölluð Rúna, gekk rösklega til verks og var mjög skipulögð og hafði gaman af handavinnu. Þær systur sáu um heimilið og þvotta, og mjólkuðu kýrnar, þær voru samrýndar. Heimilishaldið hvíldi samt alltaf meira á henni Rúnu minni.

Hálfdán Björnsson merkir skúmsunga á sandinum.
Hálfdán Björnsson merkir skúmsunga á sandinum. mbl.is/Rax

Helgi sem var næstyngstur var mikill smiður og hönnuður, hann var duglegur að hanna og smíða fyrir þær systur sínar ýmsa hluti sem létt gætu þeim störfin. Hann hafði t.d. tengt mótor við skilvinduna og strokkinn svo þær þyrftu ekki að handsnúa. Hann bjó til allskonar skálar og diska og margt fleira sem eftir hann liggur. Hann skar út í tré og ófáar stundirnar var hann við rennibekkinn að renna einhverja fallega og nytsamlega hluti. Helgi var afar þolinmóður og sérlega skapgóður enda löðuðust öll börn að honum.

Hálfdán var mikill náttúrufræðingur og eftir hann liggur stærsta skordýrasafn í einkaeigu. Hann var alltaf að finna allskonar flugur, bjöllur, fiðrildi, egg, blóm, fugla og bara allt sem náttúran hafði upp á að bjóða. Hálfdán var sporléttur, glaðsinna og mikill verkmaður.

Fjallgöngur á sunnudögum

Helgi og Hálfdán voru sérlega duglegir að fara á sunnudögum í fjallgöngur að skoða eitthvað. Að fara með þeim, en það fengum við börnin alltaf, var eins og að vera í skóla, endalaus fróðleikur. Kenna manni öll fuglahljóð og nöfn á öllum fuglum, hvað blómin, fiðrildin og flugurnar hétu. Kenna manni allt sem var í kringum mann á hverjum tíma. Ég fékk ekki að fara á dráttarvél fyrr en búið var að kenna mér mjög vel.

Þetta var háskóli lífs míns. Þessi endalausi fróðleikur og æðruleysi hjá öllum systkinunum; að taka því sem að höndum bar og gera alltaf gott úr öllum hlutum.

Maður fékk að leika sér, taka þátt í allri vinnu, sauðburði, heyskap, selveiði, göngum, mála, smíða, vaska upp. Það var alltaf talað við mann eins og fullorðinn og spurningar eins og: „Hvernig líst þér á veðrið næsta sólarhringinn?“ Þá fór maður að fylgjast með veðurfréttunum.

Það var alltaf spennandi að fara á fjöru en þá fórum við á dráttarvél sem var á flugvéladekkjum og ókum um alla fjöruna og hirtum allt sem nýtanlegt fannst og eins til að halda fjörunni hreinni. Lifað á landinu. Þau systkinin báru mikla virðingu hvert fyrir öðru og sýndu mikinn skilning á allri þessari fróðleiksfýsn hvert annars. Þau voru öll svo hjartahlý og þakklát fyrir lífið. Ég hefði ekki viljað missa af þessum skóla lífsins. Ég er sannfærð um að hann gerði mann sterkari til að takast á við lífið í allri sinni mynd.

Ómetanleg kynni af Kvískerjasystkinum

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, var ekki í sveit á Kvískerjum en kynntist ungur Hálfdáni Björnssyni og systkinum hans.

Ég sá Hálfdán Björnsson fyrst á síðasta degi vinstri aksturs hér á landi í maí 1968. Var ég þá á skólaferðalagi 5. bekkinga í MR þegar brotist var yfir óbrúaðar árnar á Skeiðarársandi á leið austur í Hornafjörð. Komið var við í hlaðinu á Kvískerjum. Þeir bræður Flosi, Helgi og Hálfdán komu til okkar að rútunum. Ógleymanleg stund. Mér fannst þetta ekki rétta stundin til að gera vart við mig. Sú stund kom þegar ég hafði hafið nám í líffræði við Háskóla Íslands með fastsetta stefnu á framhaldsnám í skordýrafræði í útlöndum. Var ég þá þegar farinn að byggja upp prívat skordýrasafn.

Sigurður Björnsson leitar fágætra steintegunda í skerjunum við jökulinn fyrir …
Sigurður Björnsson leitar fágætra steintegunda í skerjunum við jökulinn fyrir ofan Kvísker. Börnin lærðu að greina steintegundirnar. mbl.is/Rax

Hálfdán varð fljótlega þekktur í nágrannalöndum okkar fyrir einskæran áhuga sinn á skordýrunum og merkilegt skordýrasafn sem hann hafði komið sér upp við afar ófullkominn kost. Þá fyrst taldi ég mig hafa öðlast nægan þroska til að senda Hálfdáni bréf og gera vart við mig. Hálfdán tók mér afar vel, loksins var einhver mættur á sviðið til að deila með honum hugðarefnum um skordýrin! Kynnin urðu strax náin og samskiptin mikil. Við skiptumst á safneintökum og upplýsingum og fórum fljótlega að skrifa saman greinar um skordýr til birtingar í Náttúrufræðingnum.

Þegar árnar yfir sandana voru brúaðar var hindrunum rutt úr vegi. Heimsóknir mína á Kvísker urðu reglulegar til að hitta vin minn, fara með honum á afvikna staði í hans ríki til að safna skordýrum og horfa eftir fuglum. Mér var ekki bara vel tekið af Hálfdáni heldur einnig af þeim systkinum öllum á Kvískerjum þar sem ég átti ávallt vísan næturstað. Ég varð fljótt heimagangur á Kvískerjum og ávallt tekið opnum örmum af þeim systkinum öllum. Vinátta okkar Hálfdáns var vel metin á Kvískerjum og tjáði Guðrún systir hans mér eitt sinn í einrúmi að þau systkinin væru afar ánægð með kynni okkar „litla bróður“. Alltaf þegar ég mætti var Hálfdáni frjálst að hverfa af bæ til að sinna hugðarefnunum þó hábjargræðistími ríkti í búskap og lífsbjörg. Þau 22 ár sem skildu okkur að í aldri mældust ekki. Við vorum ávallt sem jafnaldrar í okkar samskiptum, en þegar fræði og áhugamál eru annars vegar fyrirfinnst ekki aldursmunur.

Eftirminnilegir matmálstímar

Þegar ég kom fyrst til Kvískerja var ég leiddur inn í betri stofu og fært kaffið þangað. Annað þótti ekki gestum sæmandi. En ég vann mér fljótlega sess í næstu stofu áður en farið var að bjóða til sætis í eldhúsinu þar sem ég eignaðist mitt pláss við borðið með heimafólkinu. Á Kvískerjum var virðing borin fyrir gestum og þótti ekki annað kurteisi en leiða þá beint til stofu.
Flak breska togarans Banffshire kom upp úr sandinum í Kvískerjafjöru …
Flak breska togarans Banffshire kom upp úr sandinum í Kvískerjafjöru tæpri öld eftir strand hans árið 1905. F.v. bræðurnir Sigurður, Hálfdán og Helgi Björnssynir frá Kvískerjum. mbl.is/Rax

Sú stund rann upp að ég var spurður varfærnislega hvort mér væri sama þó ég sæti með þeim systkinum til borðs í eldhúsinu. Það sagði mér að ég væri að fullu meðtekinn sem heimilisvinur. Minn var heiðurinn. Að sitja til borðs í eldhúsinu á Kvískerjum og borða með þeim systkinum, Flosa, Ara, Guðrúnum tveim, Sigurði, Helga og Hálfdáni, snæða selkjöt, lómakjöt, heimaræktað grænmeti eða tínt úti í haga. Maður fékk að heyra frásagnir af því hvað hver og einn hafði afrekað eða uppgötvað yfir daginn. Hlusta á frásögn af nýreknum rekaviðardrumbi sem Helgi hafði fundið, hvers konar tré var þetta, var þetta gott tré, í hvað mætti helst nýta það, hvernig var að komast að því og sækja. Spjall um þetta tré tók heilan matmálstíma, allt í rólegheitum, með þagnarpásum til að tyggja. Hálftugginn matur var sóun. Ég hef búið því að hafa kynnst sérstæðu heimilislífinu á Kvískerjum og hefur það fylgt mér alla tíð. Að kynnast því hvernig þau systkinin skiptu á milli sín verkum bæði á heimili, í búskap og fræðum, hvernig hvert og eitt fann sína sérgrein, hvernig þau virtu hvert annað og gáfu hvert öðru tíma til að sinna sínum hugðarefnum.

Við Hálfdán fórum víða um Suðausturland í leit að einhverju spennandi. Ferðirnar í Ingólfshöfða, Bæjarstaðaskóg og niður á Skeiðarársand urðu margar, í Esjufjöll og jökulskerin í Breiðamerkurjökli nokkrar, að ógleymdri krefjandi gönguför í Máfatorfu í Suðursveitarfjöllum með byrðar til tveggja nátta dvalar í tjaldi. Hálfdán hafði einu sinni áður komið í Máfatorfu með Helga bróður sínum og var hugur hans æ síðan við þennan afskekkta einangraða gróðurreit á einkar óaðgengilegum stað í Innri-Veðurárdal, einhverjum fallegasta stað á landinu, að mínu mati, þar sem fáir hafa komið. Við hittumst varla svo að Máfatorfa kæmi ekki tals. „Hefðir þú ekki gaman af því að koma í Máfatorfu?“ var ég oft spurður. Í dag er ég þakklátur sjálfum mér fyrir að hafa gert Hálfdáni kleift að koma aftur í torfuna og honum ævarandi þakklátur fyrir að hafa farið með mig þangað. Þetta var í ágúst 2004, Hálfdán þá 77 ára að aldri, léttur á fæti sem tófa.

Ragnar Axelsson og Laufey Helgadóttir synda í Kvískerjalæknum. Börnin undu …
Ragnar Axelsson og Laufey Helgadóttir synda í Kvískerjalæknum. Börnin undu sér vel og höfðu nóg að gera í sveitinni. Ljósmynd/Helgi Björnsson

Ekki má gleyma öllu því sem við brölluðum saman í fræðunum sem náðu hæstu hæðum í norrænu samvinnuverkefni sem hófst árið 1995 þegar valdir voru tveir staðir á landinum til að vakta fiðrildi. Kvísker var annar staðanna sem voru valdir og var hann sjálfgefinn. Staðsetningin á Suðausturlandi var spennandi, þar var aðstaða kjörin og maður á staðnum með kunnáttu og áhuga á að taka þátt og sinna gildrum í 30 vikur á ári, greina aflann og telja hvert fiðrildi. Hálfdán sinnti þessu verkefni af miklum áhuga og elju í um það bil fimmtán ár eða þar til tók að halla undan fæti. Margar áhugaverðar uppgötvanir voru gerðar á þessum tíma.

Komið að kveðjustund

Samband okkar Hálfdáns einkenndist alla tíð af náinni vináttu sem var okkur báðum mikils virði. Við hittumst síðast í lok október á síðasta ári á hjúkrunarheimilinu á Höfn. Eftir að Hálfdán fór þangað alfarið frá Kvískerjum ásamt Helga bróður sínum heimsótti ég þá bræður eins oft og kostur var á. Undir það síðasta mætti ég ávallt með nokkurn hnút í maganum. Myndi hann þekkja mig núna eða...? En alltaf mætti ég ljómandi brosinu, jú hvort hann myndi eftir mér. Síðustu tvær stundirnar sem við áttum saman flettum við færeyskri fiðrildabók sem hann hafði miklar mætur á og skiptumst enn sem oftar á upplýsingum. Hálfdán ljómaði ávallt þegar fiðrildin bar á góma og margar staðreyndir um fiðrildi rifjuðust upp á þessum síðustu kvöldstundum okkar saman þó margt annað væri þá horfið í þokuna. Ég vissi að þetta yrði okkar kveðjustund.
Helgi Björnsson að leggja selanet yfir ósinn. Selkópar voru nýttir. …
Helgi Björnsson að leggja selanet yfir ósinn. Selkópar voru nýttir. Skinnin gáfu g´ðar tekjur og kjötið var borðað. mbl.is/Rax

Þrem og hálfum mánuði síðar var mér treyst fyrir því að bera vin minn til grafar 18. febrúar í veðri eins fallegu og getur orðið um hávetur, stillu og heiðríkju og níu stiga hita. Græn slikja var yfir kirkjugarðinum að Hofi, nánast vor í lofti, þrjár hvítar rjúpur spókuðu sig á bakka opinnar grafarinnar, fluga svermaði yfir kistunni inni í litlu kirkjunni. Gat þetta verið táknrænni kveðjustund þessa mikla fræðimanns á Kvískerjum?

Hálfdán skildi eftir sig mikið og verðmætt safn skordýra sem hann ánafnaði Náttúrufræðistofnun Íslands formlega í erfðaskrá sinni. Áður hafði ég reyndar sótt það heim á Kvísker til að koma því í örugga höfn. Hálfdán hafði stundum nefnt það við mig að helst kysi hann að ég tæki við safninu sínu „ef það yrði ekki íþyngjandi fyrir mig að taka við því“. Ekki vildi hann auka byrði nokkurs manns. Þannig var Hálfdán.“

Ævintýri sem engu líktist

Þórunn Sigurðardóttir, leikstjóri og fyrrverandi stjórnandi Listahátíðar, fór fyrst í sveit að Kvískerjum sumarið 1953.

Kvískerjabræður fylgdust vel með framgangi og hopi jöklanna. Eins fylgdust …
Kvískerjabræður fylgdust vel með framgangi og hopi jöklanna. Eins fylgdust þeir með gróðri í jökulskerjunum. Ljósmynd/Hálfdán Björnsson
„Þegar ég minnist sumranna minna á Kvískerjum hrannast upp skemmtilegar minningar sem rista djúpt og skilja eftir varanleg áhrif á allt mitt líf. Ég er alltaf jafn hissa á því hversu skýrar þessar minningar eru. Þegar ég hef komið austur síðan geng ég óhikað að ýmsum kennileitum, man nákvæmlega hvar í Hvamminum stærsta glitrósarbeðið er, man eftir steinunum í Gilinu, föllnum girðingarstaurum og furða mig á því að þeir séu horfnir. Enn man ég latnesk nöfn á jurtum, fuglum og steinum. Skyldi það vera svona sem á að kenna börnum, svo ekki gleymist? Án þess nokkurn tímann að reyna að kenna manni, aðeins eðlileg, lífræn fræðsla, spjall og skýringar, sem vekur áhuga og virkjar minnið til langtíma.

Mér fannst þetta líf óskaplega skemmtilegt, fór eins og hver annar vísindamaður upp á jökul í langar ferðir til að rannsaka örlitlar jurtir eða reyna að finna líf í skerjum sem nýkomin voru upp úr bráðnandi jöklinum. Öll þessi fræðimennska var stunduð í bland við venjulegt krefjandi starf hins íslenska bónda, þar sem öll fjölskyldan skipti með sér verkum eftir áhuga og getu – hver og einn hafði sitt svið – og þegar á reyndi tóku allir höndum saman eins og einn maður ef bjarga þurfti heyi í hús eða taka á móti lömbum.

Fullorðinn selur flæktist í selaneti sem var lagt fyrir kópa. …
Fullorðinn selur flæktist í selaneti sem var lagt fyrir kópa. Bræðurnir Ari, Helgi og Hálfdán Björnssynir greiddu selinn úr netinu og slepptu. mbl.is/Rax

Mannkostir systkinanna

Einstakir mannkostir systkinanna á Kvískerjum gerðu dvölina skemmtilega og trausta, við krakkarnir vorum eins og hluti af fjölskyldunni og aldrei gert upp á milli okkar. Að öðru leyti en því að ég, sem eina stelpan öll mín sumur á Kvískerjum, fékk oft að njóta ýmissa hluta umfram strákana. Fékk að fara í ferðir með bræðrunum, leita að tófu, sel, bjarga lömbum úr sjálfheldu eða smala sandana ríðandi, sem mér fannst ótrúlega gaman. Þegar ég var orðin tvítug báðu þeir bræður mig um að koma austur og hjálpa þeim að smala Breiðamerkursandinn og þar var ég í viku á hestbaki nánast allan tímann. Ég minnist þessara daga sem ævintýris sem engu líktist. Og fannst það auðvitað sérstakur heiður að ég skyldi beðin um að koma í smalamennskuna umfram alla strákana sem höfðu verið þarna í sveit.

Erfiðar raunir og einangrun

Þrúður, mamma systkinanna, var mér einstaklega góð, enda svaf ég fyrsta sumarið mitt árið 1953 fyrir ofan hana í stuttu bólinu í gömlu baðstofunni. Undir rúminu voru margir árgangar af Æskunni, sem hún las úr fyrir okkur á kvöldin. Þrúður eignaðist samtals 13 börn. Hún sagði mér oft frá erfiðum raunum, þegar hún flutti kornung austur að Kvískerjum með Birni eiginmanni sínum. Frá einangruninni, frá börnunum fjórum sem hún missti, frá þrekraunum Björns við að bjarga ferðamönnum á leið yfir jökulinn. Og hræðslunni þegar hún beið hans stundum dögum saman. Frá ýmsum öðrum erfiðleikum sem Kvískerjafólkið glímdi við. Einangrunin var ekki alltaf auðveld – erfitt þunglyndi gerði vart við sig í ættinni og hafði alvarlegar afleiðingar. Þannig var þetta líf ekki neinn dans á rósum, en eins og Þrúður sagði þegar þetta bar á góma: „Öllu verður maður að taka“ og líka sagði hún: „Guð leggur ekki meira á mann en maður getur borið.“ Sú staðreynd að engu þeirra systkina varð barna auðið var tengd þessum svarta skugga, þunglyndinu, sem fylgdi ættinni eins og svo mörgum öðrum ættum hér á landi.
Á Breiðamerkursandi. Frá vinstri: Sumarbörnin Þórunn, Óli, Lárus og Siggi …
Á Breiðamerkursandi. Frá vinstri: Sumarbörnin Þórunn, Óli, Lárus og Siggi við Fjallsárós. Ljósmynd/Úr einkasafni

Umburðarlyndi og mannvirðing einkenndi lífið á Kvískerjum umfram allt. Þar heyrði ég fyrst orðið náttúruvernd. Meira að segja ræddu þau systkinin í fullri alvöru hvernig þau gætu komið í veg fyrir að hringvegurinn yrði lagður yfir sandana með tilkomu nýrra brúa yfir jökulsárnar. Þau óttuðust að aukin umferð myndi hafa áhrif á dýralífið, þessa spöku fugla, sem nánast átu úr lófanum á manni, enda hvorki kettir né rottur til í Öræfasveit.

Þegar ég var á Kvískerjum ætlaði ég alltaf að eiga heima þar. Ég valdi mér bæjarstæði upp undir jökli, skammt frá hinu tígulega Múlagljúfri. Þar var svolítið heitt vatn í jörðu, ágætir landkostir og útsýnið tilkomumikið í allar áttir og allt út á sjó. Einhvern tímann fer ég kannski austur og leita uppi þetta bæjarstæði, sem er væntanlega óbreytt í gegnum þessa áratugi, ósnert og einangrað eins og náttúran í kringum Kvísker. Hversu lengi það verður veit enginn en minningar þessa einstaka mannlífs lifa með mér hvert sem ég fer og hvað sem ég hef tekið mér fyrir hendur í gegnum árin. Án þeirra væri ég einhver allt önnur og líf mitt hefði áreiðanlega orðið allt öðru vísi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert