Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun funda fljótlega með svæðisstjórn björgunarsveita og væntanlega verður björgunarsveitarfólk kallað til leitar að Artur Jarmoszko sem ekkert hefur spurst til síðan skömmu fyrir miðnætti 28. febrúar.
Að sögn Guðmundar Páls Jónssonar lögreglufulltrúa skiluðu gögn úr síma Arturs litlum árangri en í nótt hefur verið farið yfir GPRS-gögn úr síma hans og verður leitað út frá því sem þar kemur fram.
Artur hefur ekkert notað símann frá því þetta kvöld en síðast sást til hans í eftirlitsmyndavélum í miðborginni þetta kvöld.
Artur er pólskur en hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið. Hann er 186 sm hár og með græn augu og stutt dökkt hár. Hann er talinn vera klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.
Uppfært 11.02:
Leitað verður eftir strandlengjunni á Kársnesi í Kópavogi og verður ræst út um hádegi. Leitarsvæðið var ákveðið út frá farsímagögnum.