Ásdís Ásgeirsdóttir
Bændurnir á Hvannabrekku, Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir og Steinþór Björnsson, búa við malarveginn margumtalaða í Berufirði.
„Við erum svekkt,“ segir Steinþór um niðurstöðu samgönguráðherra. Steinþór hefur búið alla ævi við veginn. Hann er fæddur og uppalinn á Hvannabrekku og tók við búi foreldra sinna. Þau hjón eiga samtals sjö börn og búa fimm þeirra hjá þeim á bænum.
Steinþór segir umferðina hafa breyst mikið síðan hann var lítill. „Þá var ekki svona mikill hraði og svona miklar þungaflutningar,“ segir hann og nefnir að umferðin þarna um sé afar þung, sérstaklega að sumarlagi og kona hans tekur í sama streng.
„Sérstaklega þegar rútur og flutningabílar fara framhjá, þá liggum við í reykjarmekkinum, þetta er ógeðslegt,“ segir Auðbjörg og nefnir einnig að rykið hafi slæm áhrif á búskapinn. „Þetta er vont fyrir gróðurinn og skepnurnar, það kemur ryk í heyið,“ segja þau. „Svo eigum við barn sem er með asma, það er ekki á bætandi.“
Auðbjörg segir veginn vera slysagildru.
„Það er bara spurning hvenær verður banaslys hérna. Við horfðum upp á það í fyrra að það valt hér Land Rover, hér beint á móti. Það voru fjórir Frakkar og það mátti minnstu muna að einn þeirra dæi, hann skaust út um rúðuna og undir bílinn. Veginum var lokað í þrjá tíma. Þetta var beint fyrir framan augunum á krökkunum. Þetta er ekkert grín. Þetta er algjör slysagildra,“ segir Auðbjörg.
Hún segir veginn einnig fara illa með bíla og þau geti til að mynda ekki keyrt fjölskyldubílinn lengur eftir veginum. „Hann var farinn að ryðga smá en ef við keyrum hann hér þá á hann eftir að brotna í sundur,“ segir hún. „Lakkið á bílunum er viðbjóður, grjótbarið.“