Leita Arturs í Kópavogi

Björgunarsveitir verða ræstar út um hádegi.
Björgunarsveitir verða ræstar út um hádegi. mbl.is/Eggert

Leit að Artur Jarmoszk sem hefur verið saknað frá því um mánaðamót er við það að hefjast. Hún hefst í vesturbæ Kópavogs og verður gengið eftir strandlengju Kársness en ákvörðun um leitarsvæði byggir á upplýsingum úr símagögnum sem lögreglan hefur aflað. 

Síðast var vitað um ferðir Arturs í miðborg Reykjavíkur seint á þriðjudagskvöldinu 28. febrúar, líkt og fram kom á mynd í eftirlitsmyndavél, en nú er talið, vegna framkominna símagagna, að hann hafi farið til Kópavogs í framhaldinu og verið þar á ferð snemma aðfaranætur miðvikudagsins 1. mars.

Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sm á hæð og með græn augu, er pólskur, en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert