Okkur er algjörlega misboðið

Rán Freysdóttir.
Rán Freysdóttir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Rán Freysdóttir er alin upp á Djúpavogi og vill hvergi annars staðar vera. Hún flutti burt í tuttugu ár, bjó erlendis og flutti þá til baka. Hún er innanhúsarkítekt, situr í bæjarstjórn og rekur veitingastaðinn Við Voginn.

Hvað finnst þér um að það sé búið að slá af að gera nýjan veg?

„Skelfilegt. Algjörlega út í hött. Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á þetta, þetta er hluti af þjóðveginum, fimm kílómetrar,“ segir hún.

„Það er mjög mikil umferð hér, allt árið. Og margar rútur sem fara hér í gegn og það þarf að þvo rúturnar í hvert skipti sem þær hafa keyrt veginn, þetta er ekkert smá mikil drulla. Ef það er ekki þurrt og allt fullt af holum sem sprengja dekkin hjá þér er svo mikil leðja að þetta er eins og skautasvell,“ segir Rán.

Okkur er misboðið

„Við eigum að sækja okkar þjónustu austur, það er sjúkrahús á Norðfirði og læknar á Egilsstöðum og okkur er beint þangað. Þetta er ekki hægt,“ segir hún og bendir á að sjúkrabílar og slökkviliðsbílar þurfi að keyra þennan veg hægt.

Rán segir mikla reiði í samfélaginu fyrir austan. „Okkur er algjörlega misboðið. Við erum fyrsti fjörðurinn á Austfjörðum og þú þarft alltaf að fara þennan veg ef þú ætlar norður, þá þarftu að fara þessa drullu.“

Ellefu rútur í hádeginu

Rán segir ferðamannastrauminn sífellt meiri og mikið álag á vegakerfinu.

„Ég rek kaffihús hér og bara í hádeginu á sumrin erum við að fá hingað ellefu rútur. Ég held að ráðamenn átti sig ekki á umferðinni sem er að fara hér í gegn. Fyrir utan alla bílaleigubílana.“

Rán segir hugmyndina um að setja á vegatolla ekki góða lausn. „Ef við erum svona blönk, ríkasta þjóðin, þá ættum við að setja hér komugjald á ferðamenn sem fer þá gagngert í að laga vegakerfið. En að ég sé að fara að borga vegatoll ef ég skrepp til læknis, ekki séns.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert