Silfra verður opnuð í fyrramálið

Silfra. Áætlað er að um það bil átta til tíu …
Silfra. Áætlað er að um það bil átta til tíu þúsund manns kafi ofan í gjána Silfru á ári hverju. Veltan í Silfru er talin vera um 120-150 milljónir á ári. Ómar Óskarsson

Opnað verður fyrir köfunarþjónustu í Silfru í fyrramálið undir nýjum hertum öryggisreglum og var algjör samstaða meðal rekstraraðila og yfirvalda um breytingarnar. 

„Það verður opnað í fyrramálið undir þessum nýju reglum. Við vorum búin að gera þessar breytingar hjá okkur þannig að nú samræmist þetta milli allra fyrirtækjanna,“ segir Jón Þór Gunn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Arctic Advent­ur­es, sem býður upp á köf­un í Silfru.

Í reglunum felst meðal annars að fækka köfurum á hvern leiðsögumann, setja skilyrði um reynslu af köfun í þurrbúningi, að krefjast læknisvottorðs um líkamlegt og andlegt heilbrigði, aðgangsstýring yfir daginn og krafa um að kafarar séu syndir. 

„Niðurstaðan er að herða þó nokkuð mikið þær reglur um hvernig fyrirtækin framkvæma köfun og snorkl í Silfru. Þetta byggir á að auka öryggi viðskiptavina og það er algjör samstaða meðal fyrirtækja og yfirvalda. Það er enginn ágreiningur,“ segir Jón Þór. 

Rekstraraðilar funda í dag til að samræma reglur um heilsufarsathuganir. Þá verða áframhaldandi fundir með yfirvöldum um framtíðarskipulag köfunar í Silfru. 

„Þetta er á engan hátt fjárhagsleg spurning, þetta er bara spurning um að tryggja öryggi kafara í Silfru,“ segir Jón Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert