Auðvelt að vera vitur eftir á

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að það sé rétt sem fólk hafi bent á; það hefði verið hægt að kaupa af­l­andskrónu­eign­ir með ódýrari hætti í fyrra. „Menn hefðu orðið að vilja semja þá,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.

Benedikt sagði á Alþingi í dag að það hefði verið hægt að þurrka upp snjóhengjuna svokölluðu í útboðinu sem efnt var til á síðasta ári ef gengið hefði verið lækkað. Um mitt síðasta ár fór fram útboð á genginu 190 krónur fyrir hverja evru en samkvæmt núgildandi samkomulagi kaupir Seðlabankinn aflandskrónueignir á genginu 137,5 krónur fyrir evru.

Ég hef líka sagt að á þeim tíma vissu menn auðvitað ekki að gengi krónunnar myndi styrkjast um 20-25 krónur miðað við evruna,“ bætir Benedikt við og segir að það sé oft auðvelt að vera vitur eftir á.

„Það er að minnsta kosti mjög auðvelt að sjá hlutina eftir á. Stundum er auðveldara að sjá þá eftir á en fyrir fram en það þýðir ekkert að tala um það núna. Þetta var ekki gert og þá verðum við að vinna úr stöðunni eins og hún er núna.“

Benedikt segist ekki hafa verið að segja að kjörin hefðu verið fullhagstæð fyrir aflandskrónueigendur. „Ég er bara að segja að í fyrra náðist ekki að klára það miðað við þau kjör sem buðust þá og menn geta ekki bæði neitað því að semja og heimtað að það sé samið einhvern veginn öðruvísi,“ segir Benedikt og bætir við að ekki hafi margt annað verið gagnrýnt við kynningu á losun hafta.

Aðstæður breytast, það er kannski meginatriðið af því að það er þannig að þetta er eiginlega eina gagnrýnisatriðið sem menn hafa komið með; það er munur á kjörunum. Það skýrist á því að aðstæður eru allar aðrar og hafa breyst með þeim hætti að manni hefði þótt það ótrúlegt fyrir átta mánuðum. Að gjaldeyrisforðinn hefði styrkst svona mikið en á sama tíma hefði gengi krónunnar styrkst um 20%.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi sitjandi ríkisstjórn á þingi í dag. Sagði hann afnám haftanna morgungjöf til vogunarsjóða í New York. Spurður um þessi ummæli hafði Benedikt lítið að segja: „Ég vil ekkert segja um það. Ég ætla ekkert að tjá mig um þessi ummæli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka