Um tuttugu björgunarsveitarmenn ganga nú fjörur við Fossvog í leit að Arturi Jarmoszko, sem ekkert hefur spurst til í um tvær vikur. Leitað er með hundum og einnig er leitað á bátum við ströndina. Stafrænar upplýsingar úr síma Arturs leiddu leitina á þær slóðir.
Enn hefur leitin engan árangur borið og engar vísbendingar komið fram í dag sem varpað gætu ljósi á hvar Artur er niðurkominn. Lögreglan telur sig fullvissa um að hann hafi ekki farið úr landi. Í gær voru um sjötíu björgunarsveitarmenn við leit.
Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að rannsókn á tölvu Arturs sé þegar hafin. Sími hans er ófundinn en reynt verður að fara aðrar leiðir til að skoða virkni í honum, m.a. tengsl við samfélagsmiðla og notkun Arturs á þeim. Sú vinna er að hefjast. Þessi gögn, úr tölvu og síma, munu mögulega hjálpa lögreglunni í leitinni.
Auk björgunarsveitarmanna á gangi og í bátum tekur þyrla Landhelgisgæslunnar þátt í leitinni í dag. Þá er fólk beðið um að svipast um í nærumhverfi sínu, t.d. í vinnuskúrum, geymslum og útihúsum.
Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sentímetrar á hæð og með græn augu, er pólskur en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.