Leitin að Arturi Jarmoszko hefur engan árangur borið. Leitað var í dag á svipuðu svæði og gert var í gær. Skipulögð leit að Arturi hófst um helgina en síðast sást til hans um mánaðamótin.
Björgunarsveitir leituðu á sama svæði og í gær en meðal annars voru gengnar fjörur við Fossvog og Kársnes. Stafrænar upplýsingar úr síma Arturs leiddu leitina á þær slóðir.
„Leitin bar ekki árangur, því er nú verr og miður. Leitað var hjá Ylströndinni í Nauthólsvík, vogunum þar, út á Kársnes og fram á Gróttu,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is.
Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar frá því í dag segir að málið sé rannsakað sem mannshvarf og að ekki sé grunur um refsiverða háttsemi.
Guðmundur segir að lögreglan muni í kvöld vinna úr frekari gögnum tengdum síma Arturs.
„Við erum að vinna úr gögnum til að reyna að staðsetja hann betur,“ segir Guðmundur en með því standa vonir til að hægt verði að þrengja leitarsvæðið fyrir morgundaginn.
Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sm á hæð og með græn augu, er pólskur, en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.