Björgunarsveitir mun hefja leit að Arturi Jarmoszko að nýju í dag. Verður leitað á sama svæði og í gær. Meðal annars verða gengnar fjörur við Fossvog og Kársnes en stafrænar upplýsingar úr síma Arturs leiddu leitina á þær slóðir.
Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að engar nýjar vísbendingar hafi borist síðustu klukkustundir sem varpað geti ljósi á hvar Artur er að finna.
Yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fundaði nú í morgun og var á þeim fundi tekin ákvörðun um að halda leit að Arturi áfram. Ekkert hefur spurst til hans síðan 1. mars.
„Það verður háfjara í hádeginu þannig að þá verður leitað,“ segir Guðmundur. Hann á von á því að þyrla Landhelgisgæslunnar muni einnig koma að leitinni í dag.
Hópur fólks hefur verið yfirheyrður vegna hvarfsins, m.a. meðleigjandi Arturs, fjölskylda hans og vinir. Niðurstöður þeirra yfirheyrslna hafa ekki skýrt hvar Artur er niður kominn.
Artur er pólskur en hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið. Hann er 186 cm hár og með græn augu og stutt dökkt hár. Hann er talinn vera klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.
Uppfært: Fréttatilkynning frá lögreglu:
Leit að Arturi Jarmoszko, sem saknað hefur verið frá því um síðustu mánaðamót, hefur enn ekki borið árangur, en unnið er að málinu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu af fullum krafti. Í því felst m.a. að afla gagna og yfirfara þau. Þessu verður framhaldið í dag, en áhersla er lögð á að kortleggja ferðir Arturs. Málið er rannsakað sem mannshvarf og ekki er grunur um refsiverða háttsemi.
Leit að Arturi heldur áfram í dag, en kallaðir verða til leitarhóparfrá Landsbjörgu og fylgja þeir vísbendingum sem hafa borist í málinu. Þyrla Landshelgisgæslunnar mun enn fremur aðstoða við leitina í dag. Fólk er beðið um að svipast um í sínu nærumhverfi, t.d. í vinnuskúrum, geymslum og útihúsum.
Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sm á hæð og með græn augu, er pólskur, en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.