Gagnrýna samráðsleysi

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynna afnám gjaldeyrishafta …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynna afnám gjaldeyrishafta á sunnudag. Sama dag var tilkynnt um skipan nefndar um endurskoðun peningastefnunnar. mbl.is/Golli

Formenn og fulltrúar Vinstri grænna, Pírata, Framsóknarflokks og Samfylkingar gagnrýna verklag ríkisstjórnarinnar við skipan verkefnastjórnar um endurskoðun peningastefnu Seðlabankans. Segja þeir að ekkert samráð hafi verið haft við minnihlutann um val á nefndarmönnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem segir m.a. að ábyrgð og vönduð mótun peningastefnu sé lykilatriði að hagsæld Íslands. Endurskoðun peningastefnunnar sé eitt mikilvægasta verkefnið sem Ísland standi frammi fyrir.

„Fulltrúum stjórnarflokkanna hefur orðið tíðrætt um bætt vinnubrögð á Alþingi og aukið samráð. Lítið hefur orðið um aðgerðir í þessa veru og það vekur furðu að verkefnisstjórn um jafnumfangsmikið og mikilvægt verkefni og endurskoðun peningastefnunnar sé skipuð einhliða af ríkisstjórn með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi.

Þarna hafði ríkisstjórnin tækifæri til að skipa nefnd sérfræðinga í góðu samráði við alla flokka á þingi og tryggja þannig þverpólitíska sátt um þá vinnu sem er fram undan. Ríkisstjórnin nýtti ekki þetta tækifæri en bendir á samráðsnefnd þingflokka sem hefur óljósu hlutverki að gegna við þetta verkefni. Það er dapurlegt að slík tækifæri séu ekki nýtt til að bæta vinnubrögð á Alþingi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka