„Leita míns umboðs til félagsmanna“

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson.

„Ég hef ekki verið með neina sérstaka stuðningsmenn innan stjórnarinnar. Ég leita míns umboðs og stuðnings til félagsmanna fyrst og fremst,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, nýkjörinn formaður VR, í samtali við mbl.is spurður hvort einhverjir þeirra einstaklinga sem kjörnir voru með honum í stjórn væru samherjar hans.

Flestir stjórnarmennirnir voru áður annað hvort í stjórn eða varastjórn félagsins. Ragnar segir að sjálfsagt sé mikið til um að ræða samherja fráfarandi formanns VR, Ólafíu B. Rafnsdóttur, sem Ragnar sigraði í formannskosningu sem lauk í gær.

Frétt mbl.is: Ragnar Þór nýr formaður VR

„Ég studdi ekki neinn sérstakan í stjórnarkjörinu og ég tel mig ekki þurfa að hafa neinn já-hóp í kringum mig,“ segir Ragnar ennfremur. Hann og hópur fólks hafi gert tilraun til hallarbyltingar í stjórn VR á sínum tíma en hann væri einn eftir af þeim.

„Hins vegar hef ég unnið að mjög mörgum góðum málum með þessu fólki sem situr í stjórn og það er fullt af málum sem ég er mjög stoltur af og allir hafa unnið að að miklum heilindum,“ segir hann. Segist hann að sjálfsögðu vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert