Björgunarsveitir munu halda áfram leit að Arturi Jarmoszko á laugardag. Á morgun mun þyrla Landhelgisgæslunnar fljúga yfir leitarsvæðið. Leitað verður á svipuðu svæði og fyrr í þessari viku, þ.e. við strandlengjuna í Reykjavík og Kópavogi, m.a. í Fossvogi.
Ekkert hefur spurst til Arturs frá því aðfararnótt 1. mars. Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að nú sé verið að vinna úr ýmsum gögnum, m.a. úr síma Arturs og tölvu sem og eftirlitsmyndavélum og vísbendinga leitað sem gætu þrengt leitina. Guðmundur segist mögulega eiga von á því að fá upplýsingar í kvöld eða á morgun sem komi að notum í þessu efni.
Lögreglan er einnig að fara yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem henni hafa borist, m.a. frá fyrirtækjum. Þegar er búið að staðfesta að Artur sést á myndavélum í miðbænum, m.a. við Hjálpræðisherinn og svo síðast á gangi í Suðurgötu um klukkan 1 nóttina sem hann hvarf. Von er á frekari gögnum úr myndavélum sem nú verður lagst yfir.
Guðmundur ítrekar að ekkert bendi til saknæms athæfis í tengslum við hvarfið. Þá segir hann mjög ólíklegt að Artur hafi farið úr landi. Í fréttum hefur komið fram að Artur tók út peninga skömmu áður en síðast spurðist til hans. Guðmundur bendir á að sú upphæð hafi verið mjög óveruleg og t.d. engan veginn dugað fyrir flugmiða.
Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sentímetrar á hæð og með græn augu, er pólskur en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.
Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.