„Tel að stefnunni hafi verið fylgt“

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að stefnunni hafi verið fylgt,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum vegna þeirrar gagnrýni að stjórnvöld hafi ekki fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var í tíð fyrri ríkisstjórnar um losun hafta. 

Gagnrýnin hefur byggst á því að stjórnvöld hafi boðað til gjaldeyrisuppboðs síðasta sumar með þeim skilaboðum að þeir aflandskrónueigendur sem ekki tækju þátt yrðu að sæta því að verða settir aftast í röðina þegar kæmi að losun hafta og krónueignir þeirra yrðu settar á langtímareikninga með lágum eða enum vöxtum.

Ríkisstjórnin hafi hins vegar ákveðið að semja við aflandskrónueigendur, sem aðallega eru erlendir vogunarsjóðir, um að kaupa af þeim aflandskrónur þeirra á hagstæðari kjörum fyrir þá en síðasta sumar. Þar með hafi trúverðugleiki stjórnvalda rýrnað sem aftur hafi birst í ákvörðun vogunarsjóðsins Loom­is Say­les að hafna tilboði þeirra.

Meðal þeirra sem hefur gagnrýnt ríkisstjórnina á þessum forsendum er Sigurður Hannesson, fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun hafta. Með framgöngu sinni hafi stjórnvöld sent kolröng skilaboð til eigenda aflandskróna. Hægt væri að fá þau til þess að gefa eftir með því að neita að spila eftir reglunum.

„Staðreyndin er sú að höftunum hefur verið aflétt og Íslendingar geta allir farið út á gengi dagsins á meðan aflandskrónureigendur fá að fara út en á hærra gengi,“ segir Benedikt. Meira sé ekki um það að segja. Varðandi það hvernig stjórnvöld ætli að bregðast við ákvörðun Loomis Sayles segist ráðherrann ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka