Verður slegið meira af kröfunum?

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við hljótum að spyrja okkur, sem erum fyrst og fremst áhorfendur að þessu, hvað stjórnvöld ætli að gera næst,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is spurð um ákvörðun bandaríska vogunarsjóðsins Loomis Sayles að taka ekki tilboði stjórnvalda um kaup á aflandskrónum í eigu sjóðsins.

Frétt mbl.is: Stór vogunarsjóður hafnar tilboðinu

Eigendum aflandskróna var boðið að taka þátt í gjaldeyrisuppboði á vegum Seðlabanka Íslands síðasta sumar á þeim forsendum að þeir yrðu að öðrum kosti settir aftast í röðina þegar kæmi af losun fjármagnshafta og krónueignir þeirra færðar á langtímareikninga með lágum eða engum vöxtum. Ný ríkisstjórn ákvað hins vegar að ganga til viðræðna við eigendur aflandskrónanna og bjóða þeim hagstæðari kjör en í boði voru síðasta sumar.

Samningar tókust við eigendur um helmings þeirra 195 milljarða aflandskróna sem út af stóðu síðasta sumar en Loomis Sayles á um þriðjung þeirra um 100 hundrað milljarða sem eftir standa. Aðrir eigendur aflandskróna eiga eftir að taka afstöðu til tilboðs stjórnvalda en ákvörðun bandaríska sjóðsins þykir auka líkurnar á að þeir fylgi fordæmi hans. 

Frétt mbl.is: Snýst allt um trúverðugleikann

Katrín bendir á í þessu sambandi að Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hafi talað um að með viðræðunum við aflandskrónueigendur hefði staðið til að klára málið sem ekki hefði tekist síðasta sumar. Hins vegar væri ljóst miðað við viðbrögð bandaríska vogunarsjóðsins að það væri ekki að ganga eftir. Þá vaknaði spurningin hvernig ætti að bregðast við því.

„Er þá ætlunin að halda þeim aflandskrónueigendum sem eftir standa áfram í höftum og þá með hvaða rökum?“ spyr Katrín. Eða hvort ætlunin sé að gera þeim enn eitt tilboðið og slá enn meira af kröfunum. Það standi upp á stjórnvöld að svara þessum spurningum. Við svona aðstæður þurfi að liggja fyrir hvert verið sé að fara áður en haldið er áfram. 

Ekki hefur náðst í Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka