Lagabreytingu þarf til að færa Grindavíkurveg framar í röðinni varðandi þau verkefni sem ráðast þarf í í samgöngumálum.
Bæjarstjóri Grindavíkur ásamt samráðshópi frá bænum fundaði með ráðherrum samgöngu- og fjármála í vikunni vegna málsins. Eftir helgi munu þau funda með þingmönnum, meðal annars úr fjárlaganefnd, í von um að komast sem fremst í röðina.
„Vegurinn var ekki kominn á samgönguáætlun. Það verður fyrsta verkefni að koma honum í ákveðinn forgang og það þarf lagabreytingu til að færa okkur framar í röðina,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, og bætir við að stefnt sé á að það náist í haust.
Innanríkisráðuneytið fól Vegagerðinni að greina Grindavíkurveg og gera á honum kostnaðarmat. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum hennar er allur vegurinn hættulegur, ekki bara á einum eða tveimur stöðum.
Að sögn Fannars er von á kostnaðargreiningu frá Vegagerðinni á næstu dögum. Athuga þarf hvað ber að gera til að geta hafist handa við 2+1-veg og aðgreiningu akstursstefnunnar, sem menn sjá fyrir sér að verði gert.
Fannar er ánægður með fundinn með Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra og aðstoðarfólki hans. „Það er greinilega mikil þekking á þessu og vitneskja um að það þurfi að grípa til aðgerða, enda hefur vegurinn verið mældur sem áhættusamur og slysamikill.“
Að fundinum loknum með samgönguráðherra fór Fannar og samstarfshópur Grindavíkurbæjar á fund fjármálaráðherra, sem var sama sinnis og samgönguráðherra.
„Hann er búinn að kynna sér aðstæður ágætlega hérna, m.a. sem göngugarpur á svæðinu. Hann er sammála um að það þarf að gera bragarbót á málum varðandi öryggi og almennar lagfæringar. Svo er það verkefni fjárveitingavaldsins að útvega peninga,“ segir hann og nefnir að úrbætur á Reykjanesbraut séu einnig nátengdar hagsmunum Grindavíkurbæjar.
Samgönguráðherra hefur viðrað hugmyndir um vegatolla til að fjármagna vegaframkvæmdir. Að sögn Fannars á eftir að koma í ljós hvort slík skattlagning verður að veruleika og bíður eftir frekari skýrslum um slíkt. „Við verðum ekki með ályktanir um hvort þetta sé æskilegt eða ekki fyrr en það liggur fyrir hvað þetta kann að þýða fyrir íbúa okkar og ferðamenn almennt. En við erum opin fyrir því að vita hvaða tillögur koma til greina til að flýta þessum verkefnum,“ greinir hann frá.