Meira en 80 björgunarsveitarmenn leita nú að Artur Jarmoszko, sem hefur verið saknað frá mánaðamótum. Leitað er meðfram strandlengjunni frá Gróttu að Nauthólsvík, við Kópavogshöfn og Álftanes.
Við leitina er meðal annars notast við báta, dróna og hunda. Að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg eru skilyrði til leitar ágæt og þá hefur gengið vel að fara yfir leitarsvæðið.
Gert er ráð fyrir að verkefnum dagsins verði lokið á milli klukkan 17 og 18.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Artur eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða í gegnum einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.