Vonast til að yfirvöld taki við sér

Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, segir fyrirtæki vera að átta …
Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, segir fyrirtæki vera að átta sig á ávinningnum sem felst í því að minnka kolefnisfótspor sitt.

Íslensk stjórnvöld ættu að ganga á undan með góðu fordæmi og sjá til þess að stofnanir ríkisins og fyrirtæki í eigu þess séu til fyrirmyndar þegar kemur að umhverfis- og samfélagsmálum. Þetta segir Ketill B. Magnússon framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, og kveður nokkuð skorta á að svo sé. Með framlengingu á samstarfi Festu og Reykjavíkurborgar varðandi loftslagsmarkmið til næstu fjögurra ára vonist menn þó til að yfirvöld taki betur við sér.

Festa stóð ásamt Reykjavíkurborg fyrir hvatningaverkefni, eða  loftslagsyfirlýsingu, sem afhent var á loftslagsráðstefnunni í París í desember 2015. Yfirlýsingin var undirrituð af 104 íslenskum fyrirtækjum sem hétu því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangs.

Þegar lagt var af stað var verkefnið upphaflega ákveðið til eins árs og voru í fyrra haldnir 13 fræðsluviðburðir þar sem sérfræðingar leiðbeindu fyrirtækjunum um markmiðssetningu og skilgreiningu á mælingum. „Fyrirtækin hétu því að setja sér markmið, mæla árangurinn og birta niðurstöðurnar. Það leiddi til þess að þau urðu að setja niður fyrir sér hvernig þau ætluðu að fara að þessu,“ segir Ketill og kveður mikinn árangur hafa hlotist af þessu samtali um það hvernig fyrirtækin ættu að fara að því að minnka kolefnisfótspor sitt.

Hefur bein áhrif á reksturinn

Ketill segir Parísarsáttmálann eiga þátt í að til hafa orðið skýrari viðmið um það hvernig fyrirtæki og þjóðir geta sett sér markmið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. „Fyrirtækin eru samt líka hvert og eitt að átta sig á því að þessir málaflokkar hafa bein áhrif á þeirra rekstur á mjög margan hátt,“ segir hann.

Mengunarský liggur yfir borginni á þessari mynd. Þeim fyrirtækjum fer …
Mengunarský liggur yfir borginni á þessari mynd. Þeim fyrirtækjum fer fjölgandi sem átta sig á því að það hefur bein áhrif á þeirra rekstur að draga úr kolefnisfótspori sínu. mbl.is/RAX

Að sama skapi hafi hlutverk Festu varðandi loftslagsyfirlýsinguna tekið breytingum frá því lagt var af stað. „Þegar við byrjuðum á þessu verkefni vissum við í sjálfu sér ekki alveg hverjar viðtökurnar eða þörfin fyrir eftirfylgni yrði,“ segir hann. „Nú erum við hins vegar að ganga frá samkomulagi við borgina um að Festa og Reykjavíkurborg styðji áfram við þau fyrirtæki sem hafa sett sér loftslagsmarkmið næstu fjögur árin. Það munum við gera með því að veita fræðslu og vera með fundi þar sem við hvetjum fyrirtækin til að segja frá sínum árangri.“

Rannsaka efndir í loftslagsmálum

Þau fyrirtæki sem skrifuðu undir loftslagsyfirlýsinguna hafa raunar þegar mörg hver haft frumkvæði að því að birta sín markmið. Ekki hafa þó öll gert það, þrátt fyrir ákvæði um slíkt í yfirlýsingunni. Festa hefur því í samstarfi við Reykjavíkurborg ákveðið að ráðast í rannsókn á efndum fyrirtækjanna varðandi loftslagsmarkmið sín.

„Við erum búin að ráða til okkar Snjólaugu Ólafsdóttur, sérfræðing í umhverfismálum, og erum þessa dagana að útbúa spurningalista sem verður sendur á fyrirtækin 104 um það hvernig þeim gangi að uppfylla markmiðin. Þar spyrjum við þau bæði hver markmið þeirra séu og líka hvort einhver ávinningur hafi hlotist af þessu.“ Kveðst Ketill þar eiga við bæði fjárhagslegan ávinning fyrir fyrirtækin sjálf sem og ávinning fyrir samfélagið.

„Við erum bara að byrja þessa vinnu núna, en erum að vonast til að geta tekið stöðuna um mitt þetta ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert