Hæstiréttur Íslands hefur vísað máli Fögrusala ehf. frá og staðfest þar með úrskurð héraðsdóms. Málið snýst um að Fögrusalir ehf. keyptu jörðina Fell í Suðursveit 4. nóvember síðastliðinn en ríkið hafði þá lögum samkvæmt 60 daga til að ganga inn í kauptilboðið. 66 dögum síðar tilkynnti ríkið að það hygðist ganga inn í kauptilboðið.
Fögrusalir ehf. kröfðust þess að felld yrði úr gildi sú ákvörðun sýslumanns að fallast á kröfur ríkisins um að ganga inn í kaupsamninginn og gefa út afsal fyrir jörðinni til ríkisins.
Í héraðsdómi var málinu vísað frá á þeim grundvelli að kröfur Fögrusala ættu sér ekki stoð í lögum um nauðungarsölu.
Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Fögrusala ehf., sagði 8. mars síðastliðinn við mbl.is að ef niðurstaða Hæstaréttar yrði á sama veg og héraðsdóms verði farið í almennt mál. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.