Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að formlegri leit björgunarsveita að Artur Jarmoszko, sem hefur verið saknað frá mánaðamótum, sé lokið. Ekki verður hafin leit að nýju nema nýjar vísbendingar berist lögreglu.
„Við höldum áfram að vinna úr okkar gögnum,“ segir Guðmundur. Engar vísbendingar hafa borist lögreglu um ferðir Arturs. Björgunarsveitirnar verða reiðubúnar að taka þátt í leit ef lögreglu þykir tilefni til.
„Það er ekkert sem bendir til að refsivert athæfi hafi átt sér stað,“ segir Guðmundur. Hann segir torvelda leitina að átta dagar höfðu liðið áður en tilkynnt var um hvarf hans.
Lögreglunni hafa borist fjölmargar ábendingar frá almenningi um föt og skó sem hafa fundist á víðavangi. Flestar hafa borist lögreglu á Facebook. Enn sem komið er hafa engar þeirra nýst við rannsóknina en enn allt er skoðað og hvetur Guðmundur fólk að halda áfram að senda ábendingar.
Síðast er vitað um ferðir hans rétt fyrir miðnætti 1. mars en þá sést hann á öryggismyndavélum í Lækjargötu.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða í gegnum einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.