„Við viljum bara vita hvað gerðist“

Ekkert hefur spurst til Arturs Jarmoszko frá því aðfaranótt 1. …
Ekkert hefur spurst til Arturs Jarmoszko frá því aðfaranótt 1. mars.

„Það er hræðilegt að vita ekkert. Við viljum bara vita hvað gerðist,“ segir Elwira Landowska, frænka Arturs Jarmoszko, sem hvarf sporlaust fyrir þremur vikum. Móðir Arturs heldur enn í þá von að hann sé á lífi. „Hún reynir að hugsa jákvætt en þetta er mjög erfitt fyrir hana,“ segir Elwira en foreldrar Arturs búa báðir í Póllandi.

Artur er 25 ára. Hann hefur búið á Íslandi í nokkur ár og fundist gott að vera hér, að sögn Elwiru. Móðir hans hefur stundum hvatt hann til að flytja aftur til Póllands en það hefur Artur ekki viljað.

Að sögn frænku hans á Artur auðvelt með að kynnast fólki og á marga vini. Tveimur vikum áður en hann hvarf hafði hann þó dregið sig í hlé og ekki verið í sambandi við ættingja sína. Hann er yfirleitt glaðvær en hafði verið niðurdreginn um hríð, en ekki þannig að ættingjar hans héldu að eitthvað alvarlegt bjátaði á. Hann starfar hjá Saffran og hafði áður en hann hvarf sótt vinnu sína vel, að sögn Elwiru.

Leita á ný ef vísbendingar koma fram

Elwira segir það viss vonbrigði að lögreglan hafi hætt formlegri leit en segist þó vita að komi fram nýjar vísbendingar verði aftur farið til leitar. Hún segist ekki vita nákvæmlega hver staðan á rannsókninni er eða hvort nýjar vísbendingar eða gögn hafi komið fram. 

Það sem Elwira veit er, eins og fram hefur komið í fréttum, að Artur sást á eftirlitsmyndavélum ganga Suðurgötuna nóttina sem hann hvarf og í áttina að Reykjavíkurflugvelli. Hann hefur ekki sést á myndavélum eftir það, að sögn Elwiru.

„Við vilum bara fá svar, alveg sama hvert það er,“ segir Elwira. 

Stefanía Anna Rúnarsdóttir, vinkona Arturs, birti í gær myndir af honum á Facebook-síðu sinni í þeirri von að það hjálpi til við leitina að honum. Færsluna má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert