Skaðabótamálinu ekki frestað

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra um að fresta skaðabótamáli vegna meints fjárdráttar hjá Sparisjóði Siglufjarðar sem kom upp árið 2015.

Magnús Jónasson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar og skrifstofustjóri sparisjóðsins, er grunaður um fjárdráttinn en hann lét af störfum fyrir sjóðinn í júní 2015. Eftir starfslokin vöknuðu grunsemdir um misferli og var hann þá kærður til héraðssaksóknara.

Héraðsdómari ákvað að eigin frumkvæði að fresta skaðabótamálinu þar til rannsókn á meintum brotum Magnúsar væri lokið og dómur kveðinn upp. Var þeirri niðurstöðu mótmælt bæði af lögmanni hans og sparisjóðsins.

Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að þótt að einhverju leyti kunni að vera hagfellt að fresta málinu þar til rannsókn á meintum brotum liggi fyrir yrði það ekki gert af þeim sökum einum gegn andmælum beggja málsaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert