„Reynsla okkar af reglunum um Silfru er góð en þær eiga þó eftir að slípast til,“ segir Einar Á Sæmundssen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum.
Gripið var til ráðstafana eftir köfunarslys í Silfru fyrir nokkru, það er settar reglur um að færri mættu vera í gjánni hverju sinni. Nýju regluverki verður fylgt eftir með reglubundnu eftirliti, það er tilviljanakenndum skyndiskoðunun á vettvangi.
„Við sjáum samt núna að köfurum hefur fækkað talsvert en snorklararnir eru ámóta margir og var. Hugsanlega hefur fólk sem er ekki fært í köfun fært sig yfir í snorklið,“ segir Einar í Morgunblaðinu í dag.