Rukkað upp á Helgafell

Af tindi Helgafells er gott útsýni.
Af tindi Helgafells er gott útsýni. mbl.is/Sigurður Bogi

Landeigendur að Helgafelli við Stykkishólm hafa ákveðið að innheimta gjald af ferðafólki. Gjaldtakan verður til að byggja upp svæðið og hafa opna salernisaðstöðu að sögn landeigenda. „Staðurinn hefur látið mikið á sjá vegna mikils fjölda ferðafólks sem hingað kemur og ef ekkert er að gert mun staðurinn ekki hafa mikið aðdráttarafl í framtíðinni,“ segir Jóhanna Kristín Hjartardóttir í svari við fyrirspurnum Morgunblaðsins, en hún og fjölskylda hennar eiga landið. Margir ganga á Helgafell til að njóta útsýnis yfir Breiðafjörð. Á tindinum eru leifar af munkaklaustri frá miðöldum en við fellið stendur nú Helgafellskirkja, sem var byggð árið 1903.

Jóhanna segir að árið 2014 hafi landeigendum verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að gera við skemmdir, sem hafi verið orðnar miklar og svæðið hafi mikið látið á sjá vegna fjölda ferðamanna sem þangað komu. „Ætlunin var að gera stíginn varanlegan, stækka planið og gera betri merkingar svo hægt sé að taka við þeim fjölda sem hingað kemur, en það koma hingað á að giska 300 manns dag hvern yfir sumartímann, og ferðamönnum fer fjölgandi.“

Ekki bara greitt fyrir útsýnið

Gjaldið verður 400 krónur fyrir tólf ára og eldri. Stefnt er á að hafa starfsmann á svæðinu sem leiðbeinir fólki, tínir rusl og gerir ýmislegt fleira.

„Það er ekki verið að greiða fyrir að horfa á útsýnið eins og margir vilja meina, heldur fyrir þá þjónustu sem er nauðsynleg á svona stað. Gjaldtakan verður notuð til að byggja upp svæðið og hafa opna salernisaðstöðu, sem við teljum nauðsynlegt á svona fjölsóttum stað,“ segir hún.

Eigendurnir sóttu um styrk til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða árin 2015 og 2016 til að klára verkið en var synjað í bæði skiptin. „Staðurinn hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir okkur og er sárt að sjá hann fara í niðurníðslu vegna ágangs. Við erum lengi búin að velta fyrir okkur hvort við eigum að loka fyrir aðgang á Helgafell, en ákváðum að fara frekar þessa leið svo fólk geti notið þess að koma hingað á þennan fallega stað. Það þarf fjármagn til að reka svona staði, það segir sig sjálft,“ segir Jóhanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert