Sóttu of seint um styrkinn

Helgafell í Helgafellssveit, skammt frá Stykkishólmi.
Helgafell í Helgafellssveit, skammt frá Stykkishólmi. mbl.is/Sigurður Bogi

Helga­fell við Stykk­is­hólm hef­ur hlotið styrk úr Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða en eig­end­ur jarðar­inn­ar sóttu of seint um styrk úr sjóðnum vegna þessa árs. Land­eig­end­urn­ir hafa ákveðið að inn­heimta 400 króna gjald á staðnum og hef­ur m.a. komið fram í máli þeirra að það sé gert þar sem um­sókn um styrk til sjóðsins hafi tví­veg­is verið hafnað.

Frétt mbl.is: Eru 400 krón­ur gjöf eða gjald?

Frest­ur til að sækja um styrki vegna árs­ins 2017 rann út 25. októ­ber í fyrra. Degi síðar barst um­sókn vegna Helga­fells og var af þeim ástæðum ekki tekið á móti um­sókn­inni, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Ferðamála­stofu. Ári fyrr fékk Helga­fell ekki styrk frá Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða.

Síðast fékk Helga­fell styrk úr sjóðnum fyr­ir árið 2014. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Ferðamála­stofu nam sá styrk­ur 6.424.765 krón­um. Var hann notaður til end­ur­bóta á bíla­stæðum, breyt­inga og end­ur­gerðar göngu­stíga ásamt upp­setn­ingu á sal­ern­isaðstöðu og skilt­um. Sagði enn frem­ur vegna styrk­veit­ing­ar­inn­ar að með því mætti stuðla að ör­yggi og ánægju­legri upp­lif­un ferðafólks sem legg­ur leið sína á Helga­fell auk þess að fyr­ir­byggja að ágang­ur ferðamanna valdi tjóni sem erfitt er að bæta.

Árið 2001 byggði Ferðamála­stofa sal­erni á svæðinu og Vega­gerðin bíla­stæði. 

Al­bína Thor­steins­son, formaður Fram­kvæmda­sjóðs ferðamannastaða, seg­ir að sjóður­inn út­hluti ákveðinni upp­hæð ár­lega og verði að for­gangsraða í þeim efn­um. Helga­fell sótti um vegna upp­bygg­ing­ar á göngu­stíg og frá­gangs á bíla­stæði fyr­ir árið 2016 en fékk ekki styrk.

„Það náði ekki nógu hárri ein­kunn til að fara inn en þetta er stiga­gjöf sem við not­um. Önnur verk­efni voru brýnni en mér finnst vara­samt að tala um synj­an­ir í þess­um mál­um. Það er verið að út­hluta ákveðinni upp­hæð og svo þrýt­ur féð,“ seg­ir Al­bína og bæt­ir við að í fyrra hafi mik­il áhersla verið lögð á út­hlut­an­ir vegna ör­ygg­is­mála.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka