Sýndi veikleika sína í Brúneggjamálinu

mbl.is/Hjörtur

Veikleikar Matvælastofnunnar sýndu sig í Brúneggjamálinu og þarf að draga af því lærdóm. Stofnunin veigraði sér við því að ganga fram að fullum þunga og að hluta til einkenndust viðbrögð á of mikilli varfærni í ákvarðanatöku.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Bjarna Snæbjarnar Jónssonar stjórnunarráðgjafa og Ólafs Oddgeirssonar dýralæknis sem falið var að gera úttekt á stjórnun og starfi Matvælastofnunar og því hvernig stofnunin sinnir matvælaeftirliti og eftirliti með dýravelferð.

Býr að verðmætum mannauði en styrkja þarf starfið

Er það mat skýrsluhöfunda að stofnunin búi að verðmætum mannauði en styrkja þarf starfið, m.a. með markvissari stjórnun og stefnumótun, skýrari verklagsreglum og betri miðlun upplýsinga. Þá er þörf á heildstæðri matvælastefnu auk þess sem skipulag matvælaeftirlits er of flókið.

Á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins er vitnað í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem segist líta á þessa skýrslu sem mikilvægt verkfæri til að efla og styrkja matvælaeftirlit og dýravelferð - og auka þar með öryggi neytenda.

„Í skýrslunni er bent á ákveðna veikleika, bæði í starfi Matvælastofnunar og stjórnvalda sem við tökum alvarlega. Í skýrslunni koma hinsvegar fram skýrar tillögur hvernig við getum bætt úr þessum ágöllum og nú skiptir öllu að horfa fram á við og vinna staðfastlega að úrbótum. Ég mun nú þegar skipa starfshóp sem mun stýra úrvinnslu á þeim tillögum sem lagðar eru til í skýrslunni varðandi mótun matvælastefnu og nauðsynlega uppbyggingu á innra starfi Matvælastofnunar. Þá mun ég funda með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um það hvernig megi einfalda matvælaeftirlit og gera það skilvirkara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert